135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[22:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er rætt frumvarp til laga um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, bandormur sem tekur til nokkurra lagabálka, annars vegar breytinga á vatnalögum og hins vegar á raforkulögum og lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Allt eru þetta kunningjar frá liðnum árum, frá því að einkavæðingin í raforkukerfinu hófst fyrir alvöru þegar farið var að hlutafélagavæða orkufyrirtækin. Frá 2002 er þetta búin að vera ein samfelld ganga í einkavæðingu orkufyrirtækjanna, orkuauðlindanna og þjónustustofnana sem tengjast þeim.

Ég minnist þess að ég var í sérstakri nefnd, svokallaðri 19 manna nefnd sem sett var á stofn í framhaldi af samþykkt raforkulaganna frá árinu 2003 þar sem samþykkt var að færa inn tilskipun Evrópusambandsins um að innleiða samkeppni á raforkumarkaði. Þar má segja að byrjað hafi sorgarsagan, þrautagangan á þeim misskilningi á aðgerðinni sem þá var sett, því að þá eins og í dag var sagt í þingsölum Alþingis að ekki væri hægt að fá undanþágu frá þessari samkeppnistilskipun. Og þótt leitað væri eftir skriflegum yfirlýsingum eða gögnum þar að lútandi, að ekki væri hægt að sækja um undanþágu, þá lá það ekki á lausu. Nei, það var eins og það væri hreint trúaratriði fyrir því markaðshyggjufólki sem þá réði för í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að fara að öllum tilskipunum, kröfum og tilmælum Evrópusambandsins um innleiðingu markaðslögmálsins, um samkeppni á öllum sviðum og þar á meðal þessum.

Meiri hlutinn samþykkti þetta þó að síðar hafi komið í ljós og ítrekað í umræðunni að við hefðum alveg getað fengið undanþágu frá þessum samkeppnismarkaði vegna þess að staðan á Íslandi er með svo allt öðrum hætti en í Evrópu. Ísland er eyland, hér eru ekki miklir möguleikar til að versla með rafmagn á milli landa. Það er sitt hvað aðstæður hér eða í Hollandi, Lúxemborg eða Belgíu þar sem eru aðliggjandi landamæri að mörgum öðrum löndum og þó að menn geti velt því fyrir sér þar að einhver slíkur sé markaður mögulegur þá er hann ekki fyrir hendi hér. Þessi aðgerð af hálfu þáverandi ríkisstjórnar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, var því afar sorgleg og síðan hafa menn verið að elta skottið á sér í þessum efnum. Við sitjum áfram uppi með markaðshyggjuríkisstjórn, því að þótt Framsókn sé farin kemur nýr samstarfsaðili í bólið sem er síst betri en sá fyrri hvað varðar markaðshyggju á sviði almannaþjónustu.

Við munum heyra þetta aftur, nákvæmlega sömu setningar og sagðar voru þá, að við verðum að leiða þetta inn því að þetta sé tilskipun frá Evrópusambandinu. Hvað höfum við ekki heyrt í umræðunni í dag um innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins um svokallaða matvælalöggjöf? Að við verðum að leyfa innflutning á hráu kjöti og hrámeti frá Evrópusambandinu, að við verðum að gera það. Þetta heyrum við meira að segja ráðherra segja alveg eins og þáverandi iðnaðarráðherra sagði á þeim tíma, að við yrðum að innleiða samkeppni í orkulögin. Nákvæmlega sama heyrum við í dag. Hún er svo ótrúleg þessi hnjáliðamýkt ráðherranna og ríkisstjórnarinnar, þessara markaðshyggjuafla, þegar eitthvað er til umræðu á þá lund.

Nú heyrum við aftur á móti í sambandi við Evróputilskipun um innflutning á hráu kjöti að það sé eiginlega engin leið að afla skriflegra gagna um að ekki hafi verið leitað eftir undanþágum heldur hafi menn bara bognað. Svona er þetta á hverju sviðinu á fætur öðru hvað varðar tilskipun frá Evrópusambandinu. Ráðherrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, hvort heldur hún er með Framsókn eða Samfylkingu, eru með hnén bogin þegar um það er að ræða og því eru yfirlýsingar á því sviði í rauninni marklausar.

Síðan var skipuð nefnd, eins og ég kom að áðan, 19 manna nefnd sem átti að fara ofan í þennan aðskilnað á raforkuflutningi og raforkuframleiðslu. Það væri afar mikilvægt að gera það hér á landi. Drottinn minn dýri, það var lagt þannig upp. Ég minnist vel umræðunnar og ég ætla að koma aðeins inn á hana. Þá kom einmitt fram umræðan um stofnun Landsnets eða sérstaks flutningakerfis sem síðan fékk nafnið Landsnet. Ég óskaði ítrekað eftir því þá að fram færi formleg úttekt á kostum og göllum hinna mismunandi eignar- og rekstrarforma flutningsfyrirtækisins miðað við skilgreint hlutverk þess og markmið í rekstri, því að þá voru einnig uppi mjög sterkar hugmyndir um að gera þetta að hlutafélagi í eigu ríkisins. Fyrst átti þetta reyndar að vera hlutafélag sem síðan átti að selja á almennum markaði eftir nokkur ár. Gegn því var mikil andstaða. Ég óskaði eftir því að fram færi úttekt á því hvaða eignar- og rekstrarform væri best miðað við hlutverkið. Það fékkst ekki og hefur enn ekki fengist. Ég sé á því frumvarpi sem nú er til umræðu að áfram er tönnlast á því að það verði að halda þessum aðskilnaði, það verði að hafa þetta í hlutafélagaformi, það verði að vera hægt að selja hlutina til einkaaðila o.s.frv. Þegar spurt er hvers vegna þá verður fátt um svör.

Stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessum efnum er alveg á hreinu. Við teljum að sameiginlegar auðlindir landsmanna eigi að vera á forræði almannavaldsins. Þannig verði best tryggð sjálfbær nýting þeirra. Raforkukerfið á Íslandi var t.d. dæmi um afrakstur þess að almannafé var nýtt til uppbyggingar og nýtingar á sameiginlegri auðlind landsmanna.

Við höfum frá upphafi varað við afleiðingum þess að tilskipun Evrópusambandsins um innri skipan raforkumála yrði tekin upp hér á landi. Ýmsar aðstæður valda því að Íslendingar hefðu átt þá strax að fara fram á undanþágu af augljósum ástæðum, m.a. landfræðilegrar stöðu landsins. Mér segja fróðir menn að það sé enn hægt að fara fram á undanþágu frá þessari tilskipun Evrópusambandsins og ég spyr: Hvers vegna er það ekki gert?

Markmiðið með flutningskerfinu er að annast ákveðna skilgreinda almannaþjónustu, miðlun rafmagns á sem hagkvæmastan og öruggastan hátt og jafnframt að annast verðjöfnun á raforku til neytenda þannig að hún sé í boði og á sama verði og sömu gæðum hvar sem er á landinu. Raforkukerfið á Íslandi hefur verið byggt upp á löngum tíma og á grundvelli einkaleyfis og samræmdrar yfirstjórnar. Með því hefur náðst góður árangur í að eiga við álagstoppa og tryggja stærðarhagkvæmni sem eru veigamiklir þættir í rekstri raforkukerfa.

Ekki verður séð hvernig öryggi, skilvirkni og hagkvæmni verður betur tryggð með því að innleiða samkeppni og skipta þessum fyrirtækjum upp á milli framleiðslu og dreifingarþjónustunnar. Þá er einmitt hætta á að við fáum offjárfestingar sem geta leitt til sóunar og lélegrar nýtingar eignanna. Einnig er vert að benda á mikilvægar forsendur þess að raforkuframleiðsla valdi sem minnstu raski á umhverfi sem eru að henni sé vel stýrt og sem minnst sóun verði á raforku vegna hluta eins og offramleiðslu og óþarfa taps í dreifikerfinu.

Reynsla undanfarinna missira af kerfisbilunum í Bandaríkjunum og Kanada og meginlandi Evrópu hefur staðfest að markaðsvæðingin felur í sér margvíslegar hættur. Mér er minnisstætt dæmi frá Kaliforníu árið 2003 eða 2004 þar sem nánast allt raforkukerfið í Kaliforníu hafði verið einkavætt og allt í einu fór það á hausinn og hrundi og ríkið varð að kaupa aftur til baka bæði dreifikerfið og flutningskerfið.

Það er líka athyglisvert að horfa til þess að alveg eins og nú lögðu fulltrúar almannasamtakanna, þeir sem bera almannaheill fyrir brjósti, bæði Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, fram álit þegar málin voru hér á dagskrá í febrúar árið 2004 um þessa uppskiptingu á milli framleiðslu og dreifingar, þar sem þessari aðferð var hafnað. Ég vil leyfa mér að vitna í álit þeirra þá, herra forseti, því að segja má að það gildi alveg eins í dag og er reyndar að mörgu leyti samhljóða því sem er í dag. En í áliti fulltrúa ASÍ og BSRB árið 2004 þegar var verið að keyra þennan aðskilnað hér í gegn lagalega stendur, með leyfi forseta:

„Afstaða ASÍ og BSRB til þessa máls byggist á þeirri grundvallarsýn að vatns- og gufuorka sem nýtist til raforkuframleiðslu sé auðlind sem allir landsmenn eigi rétt á að njóta sameiginlega og með sem jöfnustum hætti. Lög sem snerta nýtingu þessarar auðlindar verða því að taka mið af þessu grundvallarsjónarmiði. Orkan er ein af mikilvægustu forsendum lífskjara hér á landi og ljóst að framtíðaruppbygging í atvinnumálum byggist að miklu leyti á hagkvæmri orku.“

(Gripið fram í.) Já, ef henni verður ekki allri sóað í álver eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert (Gripið fram í.) og gefur hana þar á útsölu. Það er svo merkilegt með sjálfstæðismenn hvað þeir virðast vera blindir í stóriðjunni. Eins og ASÍ og BSRB vöruðu hér við í umsögn, að markaðshyggjan mundi glepja mönnum sýn, menn mundu fara að krefjast hærri arðsemi af fjármagni í dreifiveitunum t.d., þá hefur það orðið raunin. Ég minnist þess t.d. í framhaldi af þessum lögum að Orkubúi Vestfjarða, sem hafði þá verið með eina lægstu gjaldskrá á landinu um tíma og var að fullu í eigu ríkisins en var samt sjálfstæð rekstrareining, var skipað að hækka orkutaxta sinn á þeirri forsendu að hún reiknaði sér of lága arðsemiskröfu fjárins. Fjármagn (Gripið fram í.)sem hið opinbera átti. Arðsemiskrafan þá var að mig minnir 3,5%. Þá var krafan að hún færi fyrst í 5 og síðan í 7% og síðan var krafan sú að innan ákveðins tíma yrði arðsemiskrafan komin upp í a.m.k. 11% árið 2009. Þetta var einmitt í þessu áliti 19 manna hópsins, sem ég var reyndar ekki aðili að, ég studdi það ekki, en þetta var krafan.

Hvernig hefur þetta svo reynst, herra forseti? Það er verið að gera kröfu á Rarik um að skipta sér upp. Rarik var hlutafélagavætt. Og hvaða áhrif hafði það? Starfsemin lokaðist af. Rarik var ríkisfyrirtæki og í gegnum þá beinu eignaraðild var lagt fjármagn á fjárlögum ár hvert til uppbyggingar á dreifikerfum landsmanna, m.a. til þrífösunar rafmagns. Menn höfðu uppi svardaga þá, áður en Rarik var hlutafélagavætt, að það væri einmitt hægt að beita ríkiseigninni á Rarik með þeim hætti að efla dreifiveiturnar, efla og byggja upp dreifikerfið.

Nú er það svo að þetta dreifikerfi, þrífösun á rafmagni, hefur nánast stöðvast sem sértæk aðgerð síðan Rarik var hlutafélagavætt. Ég lagði fram fyrirspurn fyrr í vetur, herra forseti, varðandi þrífösun rafmagns og spurði hve mörg býli og þorp ættu ekki kost á tengingu við þriggja fasa rafmagn og hvernig þau skiptust eftir landshlutum. Það voru samtals 2.489 býli sem ekki hafa aðgengi að þriggja fasa rafmagni. Þrífösun rafmagns er forsenda fyrir samkeppnishæfu atvinnulífi í hinum dreifðu byggðum landsins. Í þeirri hægu þróun sem var þó áður en markaðsvæðingin kom inn með þessum hætti settu menn sér mark og ákveðnu fjármagni var varið til þess á hverju ári að ráðast í þessar aðgerðir. Núna er engin svör að fá.

Ég er með erindi frá ýmsum bændum og fyrirtækjum út um land sem reyna að ganga eftir því að vita hvenær þeir geta fengið þrífösun rafmagns og það er engin svör að fá. Í svari sem ég fékk við fyrirspurn minni, þingskjal 245, 98. mál, segir eins og ég sagði áðan að 2.489 býli hafi ekki aðgengi að þriggja fasa rafmagni. Þegar spurt er hve miklu fé sé varið á þessu ári til þrífösunar rafmagns í dreifbýli þá er svarið að ekki sé um sérstakar aðgerðir að ræða sem eingöngu snúa að því að tengja þriggja fasa rafmagn. Og þar er vitnað til þess að árið 2006 varð Rarik að hlutafélagi og þá var gert ráð fyrir því að ekki væri hægt að leggja í svona sértækar aðgerðir umfram það sem gert væri með almennri endurnýjun á lagnakerfinu. Sömu sögu er að segja um Orkubú Vestfjarða.

Ég spurði einnig hvort fyrir lægi einhver kostnaðargreind framkvæmdaáætlun og pólitísk stefnumörkun um lagningu þriggja fasa rafmagns til þeirra staða sem ekki hafa aðgang að því nú. Um það hafði verið gerð áætlun. Árið 2002 var búið að leggja upp tímasetta áætlun um átak í uppbyggingu þriggja fasa rafmagns og var gerð sérstök skýrsla þar að lútandi.

Eins og ég sagði áðan, eftir að Rarik var hlutafélagavætt var í sjálfu sér ekki talið að hið opinbera gæti komið með beinum hætti að því að hvetja til þess að leggja þriggja fasa rafmagn, eins og stendur í lok svarsins, með leyfi forseta, en þá er aftur búið að skipa nefnd:

„Á haustmánuðum skipaði ráðherra vinnuhóp sem m.a. er falið að endurmeta þörf atvinnulífs á landsbyggðinni fyrir þriggja fasa rafmagn ásamt því að gera nýtt mat á kostnaði við að tryggja öllum landsmönnum aðgang að því.“

Svo segir síðar:

„Það eru ekki fyrirætlanir um að ríkið leggi fram sérstaka fjármuni til að hraða endurnýjun og uppbyggingu raforkudreifikerfisins.“

Hins vegar eru orkufyrirtækin hvött til að gera það eins hratt og hægt er.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er að verða lokið. En þetta hefur verið ein sorgarsaga, hækkun á rafmagni til ferðaþjónustunnar er eitt dæmi. Hækkun á rafmagni til landsbyggðarinnar er ein alvarlegasta brotalömin sem fylgt hefur markaðsvæðingunni. Ég verð því að segja, herra forseti, (Forseti hringir.) að sú vegferð sem hér á að fara með aukinni markaðsvæðingu raforkukerfisins og uppskiptingu á milli (Forseti hringir.) einstakra þátta gengur gegn hagsmunum landsmanna.