135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[23:43]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hv. þm. Gunnari Svavarssyni fyrir þá tímamótayfirlýsingu sem hann gaf hér áðan í ræðustól um að hann talaði ekki fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Það er kemur út af fyrir sig ekki mjög á óvart en það er mikilvægt að fá það staðfest og skjalfest hér í þingtíðindum að hann ætli ekki að taka að sér það hlutverk.

Ég vil segja að það er út af fyrir sig rétt sem hv. þm. Gunnar Svavarsson sagði að um margt sem við höfum verið að ræða er ágætur pólitískur samhljómur þó að hér sé deilt um tiltekna hluti. Það kom reyndar líka fram í fyrri ræðu minni um þetta mál að mér finnst það, eins og ég skil markmiðin með frumvarpinu, í sjálfu sér jákvætt þó að ágreiningur sé um útfærslu í nokkrum einstökum en samt viðamiklum þáttum.

Ég fór hér yfir allmarga þætti í fyrri ræðu minni en tímans vegna komst ég ekki yfir allt sem ég hefði viljað koma að. Mig langar til þess að bæta aðeins úr því í þessari stuttu ræðu hér í lokin, m.a. varðandi umræðuna um flutningskerfið sjálft sem ég fór ekki í áðan en hv. þm. Gunnar Svavarsson vék aðeins að. Því hefur stundum verið lýst þannig að flutningskerfið sjálft sé eins konar vegakerfi í orkumálunum, eins konar grunnnet sem við viljum að sé í sameiginlegri eigu.

Má rifja það upp að þegar Síminn var seldur á sínum tíma þá fór auðvitað heilmikil umræða fram um það fram hvort ætti að selja grunnnetið með Símanum. Það var á þeim tíma talið óhjákvæmilegt að selja það með því það væri ekki hægt að skilja það frá. (Gripið fram í.) Já, eins og það var kynnt þá og lagt fram af hálfu þáverandi ríkisstjórnar.

Þegar búið er að selja Símann, einkavæða hann, þá allt í einu áður en langt um líður kemur þetta sama einkafyrirtæki og ætlar að selja grunnnetið. Þá var það ekki lengur orðið neitt tiltökumál að skilja það frá en það þótti ómögulegt þegar fyrirtækið var selt. Það afhjúpar auðvitað að að sjálfsögðu var hægt að halda grunnnetinu í opinberri eigu þó að fyrirtækið sem maður gat sagt að væri komið í samkeppnisrekstur væri selt.

Hið sama á við um flutningskerfið sem við erum að tala um, þ.e. það er Landsnet í þessu tilfelli. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum þeirrar skoðunar að það sé afar þýðingarmikið að það sé á höndum hins opinbera. Ég get ekki heyrt betur en að í máli hv. þm. Gunnars Svavarssonar komi fram það sama viðhorf að það sé mikilvægt að grunnnetið sé í opinberri eigu. Hann segir það hér að það standi ekki til að selja hluta í þessu flutningsfyrirtæki enda mundi heimildin til þess koma í gegnum fjárlög og þar sem hann er nú formaður fjárlaganefndar þá standi ekki til að veita slíka heimild. Ég skildi hann þannig að það væri það sem hann í rauninni var að segja.

Sannleikurinn er sá að það kæmi aldrei til kasta fjárlaganefndar að veita slíka heimild nema af því að í þessu frumvarpi hér, ef að lögum verður, er búið með því ákvæði að opna á þann möguleika. Og nú segja þau fulltrúar Samfylkingarinnar, ja það stendur ekki til. Gott og vel. Það er fín yfirlýsing svo langt sem hún nær og ég held að við í grunninn séum alveg sammála um hana. En þá hlýtur að vakna aftur spurningin: Ef það stendur ekki til af hverju í ósköpunum þarf þá að setja um það heimild í lögin að það megi? Er það til þess að einhverjir aðrir geti komið á síðari stigum og átt auðveldari leið í þessu efni? Það vekur upp spurningu um þetta.

Síðan hefur farið fram nokkur umræða um það hvaða lög séu rétthæst. Því er haldið fram að það verði ekki hægt selja þennan hlut af því að það sé bundið í öðrum lögum, eins og ég skildi t.d. hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur í andsvari hér fyrr í kvöld. (Gripið fram í.) Já ... En sannleikurinn er nú sá að það geta auðvitað komið upp deilur um það hvaða lög eru rétthæst ef ákvæði laga stangast á. Hér eru nýrri lagaákvæði þannig að það kann að vera að túlkunin yrði sú að þau hefðu forgang. Venjulega ganga nýrri lög framar eldri lögum ef þau stangast á. Og síðan, eins og ég hef skilið málið, hefur líka staðið til að afnema eða endurskoða sérlög um ýmis orkufyrirtæki þannig að það gengur allt í þessa veru.

Ég ætla ekki að hafa frekari orð um þennan þátt. En ég ætla að nefna hér aðeins hlut sveitarfélaganna sem ég náði ekki að fjalla um í fyrri ræðu minni, og umræðuna sem orðið hefur um viðhorf Sambands ísl. sveitarfélaga og einstakra sveitarfélaga, sveitarstjórnarmanna og stjórnarmanna í sambandinu. Ég ætla fyrst hnykkja á því sem ég kom örlítið inn á í fyrstu ræðu minni að ég tel að við samningu frumvarpsins hefði átt að hafa nánara og betra samstarf við sveitarfélögin af því að þau eru mjög ríkir hagsmunaaðilar í þessu. Það hefði verið í anda þeirrar góðu stjórnsýslu sem ásetningur er um í gráu bókinni um frágang lagafrumvarpa og á það hefur skort.

Það breytir því auðvitað ekki að það geta verið mismunandi pólitískar skoðanir og afstaða til þeirra álitamála sem rakin eru í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga frá því í apríl. Hér hafa farið fram nokkrar umræður og skoðanaskipti um það milli framsögumannanna hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur og Álfheiðar Ingadóttur.

Ég tel að það sé margt í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga sem hefði mátt gaumgæfa betur og fara yfir í nefndarvinnunni. Ég hef tekið eftir því að hv. formaður iðnaðarnefndar telur að nefndin hafi farið yfir þau atriði, tekið sum til greina og önnur ekki eftir atvikum og helgast þá væntanlega af því að meiri hluti nefndarinnar er einfaldlega ósammála þeim atriðum sem koma fram í umsögn og er ekkert við því að segja. Það er ekkert óeðlilegt við það. En með vísan til þess að orkufyrirtækin eru almennt í eigu sveitarfélaganna þá hefði þurft að undirbúa það mál meira í samstarfi við þau.

Ég vil láta það koma fram varðandi það sjónarmið sem kemur fram í umsögn sambandsins að ekki ætti að setja frekari skorður við rétti sveitarfélaganna til þess að selja hlut sinn í þessum orkufyrirtækjum að ég er ósammála því. Þetta viðhorf kemur hér fram og er áreiðanlega sjónarmið einhverra sveitarstjórnarmanna úr sumum flokkum frekar en öðrum.

Ég tel að eðlilegt sé að löggjafinn setji ramma um þessa mikilvægu starfsemi, orkumálin og auðlindamálin, og þess vegna sé eðlilegt að eignarhald sé sett í lög ef menn vilja opinbert eignarhald á auðlindunum sjálfum, að ég tali nú ekki um á rekstrinum á þjónustunni sem verið er að veita. Um það eru bersýnilega skiptar skoðanir. Mér finnst eðlilegt að löggjafinn setji um það ákveðinn ramma.

Ég skil alveg hvað Samband ísl. sveitarfélaga er að fara í þessu efni. Ég hef sjálfur oft tekið þátt í umræðu um nákvæmlega þessi mál og haldið því fram að ekki megi skerða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna. En það breytir ekki því að það er löggjöf — ekki bara á sviði orkumála heldur líka um grunnskóla jafnvel þótt sveitarfélögin sjái um að reka grunnskólana og leikskólana o.s.frv. Það er löggjöf sem er rammi um þá starfsemi sem um er að ræða þó að reksturinn og framkvæmdin séu falin sveitarfélögunum. En það er mikilvægt að þetta mál sé leyst í góðu samstarfi við þá aðila sem málið varðar sérstaklega og ég tel að á það hafi að einhverju leyti skort í þessu samhengi.

Virðulegi forseti. Tími minn er á þrotum og ég vil nota þetta tækifæri og þakka fyrir ágæta umræðu um þetta þýðingarmikla mál. Ég harma að enn þá sé uppi ágreiningur á milli nefndarmanna og hér í þingsalnum um það hvernig leiða á það til lykta. (Forseti hringir.) En ég held að umræðan hafi verið góð og innihaldsrík og að við höfum notað tímann í dag vel til þess að fara yfir þetta stóra hagsmunamál.