135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[10:06]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

Ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands hafa um nokkurt skeið undirbúið aðgerðir til að styrkja gjaldeyrisforðann og auka aðgang Seðlabankans að erlendu lausafé í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda á fyrri hluta árs 2006 um að gjaldeyrisforðinn yrði efldur.

Veigamikið skref var stigið í þessa átt í árslok 2006 með lántöku ríkissjóðs að fjárhæð einum milljarði evra sem endurlánað var Seðlabankanum.

Vegna þeirrar erfiðu stöðu sem ríkt hefur á fjármálamörkuðum að undanförnu þykir rétt að haldið verði áfram á þessari braut. Nú nýlega gerði Seðlabankinn tvíhliða gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur sem hver um sig veitir Seðlabankanum aðgang að allt að 500 milljónum evra gegn íslenskum krónum og eykur þannig verulega aðgang Seðlabankans að erlendu lausafé þegar og ef nauðsyn krefur.

Erlend lántaka ríkissjóðs í því skyni að efla gjaldeyrisforðann enn frekar er til athugunar. Jafnframt þykir æskilegt að svigrúm ríkissjóðs verði aukið til útgáfu ríkisverðbréfa á innlendum markaði ef þess er talin þörf í því skyni að efla innlent fjármálakerfi og stuðla að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Mikil eftirspurn eftir skammtíma ríkisverðbréfum að undanförnu, sérstaklega erlendis frá, hefur dregið nokkuð úr virkni peningastefnu Seðlabankans og haft óheppileg hliðaráhrif á skuldabréfa- og gjaldeyrismarkaði.

Með frumvarpi þessu er því leitað lagaheimildar til þess að fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs geti á þessu ári tekið jafnvirði allt að 500 milljarða króna að láni til framangreindra ráðstafana.

Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvenær á árinu, að hvaða marki, í hvaða áföngum eða í hvaða hlutföllum erlendrar og innlendrar lántöku heimildin verði nýtt, enda mun það ráðast af aðstæðum. Rétt þykir hins vegar að til staðar sé sérstök lántökuheimild sem geri kleift að ráðast á þessu ári með litlum fyrirvara í verulegar erlendar eða innlendar lántökur umfram þær lántökur sem fjárlög ársins 2008 gerðu ráð fyrir.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.