135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[10:25]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008 að upphæð allt að 500 milljörðum kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Verður sú upphæð annars vegar endurlánuð Seðlabanka Íslands í því skyni að efla gjaldeyrisforða bankans og hins vegar er ætlunin að nýta hluta fjármagnsins til aukinnar útgáfu ríkisverðbréfa á innlendum markaði í því skyni að styrkja innlendan peninga- og gjaldeyrismarkað.

Þetta eru jákvæð skref sem hér eru tekin og koma þau í kjölfarið á nýlegum tvíhliða gjaldeyrisskiptasamningi Seðlabankans við seðlabanka Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur. Hver þessara samninga um sig veitir Seðlabankanum aðgang að allt að 500 milljónum evra gegn íslenskum krónum og er með þeim hætti aðgangur Seðlabankans að erlendu lausafé aukinn verulega. Má ætla að þessar aðgerðir hafi jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf og því styðjum við framsóknarmenn frumvarp þetta þótt óneitanlega hefðum við kosið að farið hefði verið fyrr í aðgerðir sem þessar, enda mánuðir síðan við kölluðum eftir aðgerðum.

Þess er skemmst að minnast að í tíð fyrri ríkisstjórnar undir lok árs 2006 var gjaldeyrisforðinn efldur verulega með lántöku ríkissjóðs sem nam einum milljarði evra og var sú fjárhæð endurlánuð Seðlabankanum með sama hætti og nú er fyrirhugað að gera. Sökum þess að þegar á haustdögum voru sterk merki um að stefnt gæti í fjármálakreppu í hinum vestræna heimi hefði verið eðlilegt að halda áfram á þessari braut og það mun fyrr en nú er stefnt að. Það eru ekki sterk rök í þeim efnum að vísa til þess að ef fyrr hefði verið farið í þær aðgerðir hefði kostnaðurinn við lántökuna verið meiri fyrir hið opinbera, því að sá dráttur sem orðið hefur á aðgerðum frá því að forsætisráðherra boðaði þær á ársfundi Seðlabankans þann 28. mars sl., ég endurtek 28. mars sl., hefur reynst fólkinu í landinu og fyrirtækjunum mjög dýr. Skert aðgengi að lánsfjármagni og stöðnun atvinnulífsins eru vandamál sem koma niður á öllum í íslensku hagkerfi. Þetta sjá allir sem vilja sjá.

Það eru sem fyrr segir mánuðir síðan við framsóknarmenn bentum á að margir veikleikar væru í íslenskum þjóðarbúskap sem bregðast þyrfti við með skjótum hætti. Sérstaklega má þar tiltaka tvo þætti sem nauðsynlegt var að bregðast hratt og skynsamlega við. Er þá annars vegar átt við efasemdir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum um að íslenskar fjármálastofnanir geti staðið við skuldbindingar sínar og hins vegar það að nú er hafinn samdráttur í íslenskum þjóðarbúskap sem að öllum líkindum leiðir til minnkandi kaupmáttar. Fyrri váin er ný í íslenskri efnahagssögu síðari ára, hin síðari er gamalkunnur óvinur. Sé ekki brugðist við með skynsamlegum og ákveðnum hætti getur þessi tvíþætta ógn leitt til dýpri og langærri efnahagskreppu á Íslandi en við höfum séð í mörg ár og mjög lengi. Hún getur jafnframt rýrt alvarlega það efnahagslega traust sem þjóðin hefur áunnið sér erlendis með áratuga skilvísi. Slíkt traust er fjárhagslega mjög mikilvægt og bíði það hnekki er erfitt og mjög seinlegt að vinna það til baka.

Nýjar tölur Hagstofunnar sýna okkur að verðbólga fer hér með himinskautum og mælist hún 12,4% í maí sem er hækkun um 1,37% á milli mánaða. Undanfarna þrjá mánuði hefur verðbólgan hækkað um 6,4% sem jafngildir 28% verðbólgu á ári. Verðbólgan hefur ekki mælst hærri í 18 ár. Þó bregður svo við að þessar tölur væru enn hærri ef húsnæðisliðurinn væri ekki með í vísitölunni og er af sem áður var þegar hækkanir á húsnæði drógu verðbólguvagninn. Þetta segir okkur meira en mörg orð um stöðuna á fasteignamarkaðnum enda segja nýlegar fréttir af fasteignamarkaði að íbúðalánum hafi fækkað um tæplega 80% á milli ára sé liðinn aprílmánuður borinn saman við aprílmánuð 2007.

Hvort tveggja, mikil verðbólga og frost á húsnæðismarkaði, hefur alvarlegar afleiðingar fyrir kjör fólksins í landinu. Það er því ljóst að ríkisstjórnin verður að taka á málum með ábyrgum hætti og ekki stendur á okkur í stjórnarandstöðunni, a.m.k. ekki okkur framsóknarmönnum, að styðja þau skref sem stíga þarf í þeim efnum.

Hæstv. forseti. Við framsóknarmenn teljum að erlend lántaka af þessum toga sé nauðsynlegt skref til að treysta trúverðugleika íslensks efnahags- og fjármálalífs og það skili sér aftur með jákvæðum hætti í baráttunni við að koma í veg fyrir víxlverkandi vítahring verðbólgu, gengisveikingar og vaxtahækkana.