135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[10:39]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því frumvarpi sem hér er fram komið um heimild til ríkissjóðs til sérstakrar lántöku í því skyni að styrkja gjaldeyrisvaraforðann. Ástæða þess að þörf er á að grípa til þessara aðgerða er fyrst og fremst sú að við höfum verið að upplifa afleiðingar alþjóðlegrar lánakreppu og skort á lánsfjármagni á alþjóðlegum mörkuðum. Við höfum í kjölfarið séð að íslenskir bankar hafa lent í erfiðleikum enda hafa þeir byggt framrás sína á undanförnum árum mikið á endurlánum sem fjármögnuð eru með aðgangi að ódýru lánsfé og aðstæður á mörkuðum hafa gert þeim erfitt fyrir.

Við búum jafnframt við þann vanda að við erum með minnsta gjaldmiðil sem flýtur í hinum vestræna heimi og það er mjög erfitt að saman fari opið og frjálst hagkerfi og sjálfstæður lítill gjaldmiðill. Við þær aðstæður skapast oft sérkennileg staða eins og við upplifðum á síðasta ári þegar við sáum að Bandaríkjamenn drógu varnarliðið heim frá Íslandi með tilheyrandi samdrætti í útflutningstekjum og gengi krónunnar haggaðist ekki. Tilkynnt var um 30% samdrátt í þorskafla og gengið haggaðist ekki. Með öðrum orðum, gengi krónunnar ræðst af ýmsum öflum sem ekki standa nauðsynlega í samhengi við þá verðmætasköpun sem að baki liggur hér í íslensku hagkerfi og við þau öfl er erfitt að eiga. Það sem best getur dugað til þess er öflugur viðbúnaður þannig að ljóst sé að ríkisvaldið hafi í hyggju að standa að baki íslensku efnahagslífi og öllum þátttakendum í því, þar á meðal fjármálakerfinu.

Stjórnarandstaðan hafði ýmis orð uppi fyrr í umræðunni og einkanlega þá hv. formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Kvartað var yfir stuttri greinargerð en ég tel það nú frekar kost á málinu en löst, þessi ríkisstjórn er ríkisstjórn aðgerða en ekki orða (Gripið fram í.) og málið skýrir sig sjálft. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór með hefðbundna upptalningu á uppáhaldsorðum sínum á borð við bruðl og flottræfilshátt og öðrum slíkum. En þegar kemur að svörum um valkosti í efnahagsstefnu er ekki mikið að finna frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. (Gripið fram í.) Hann taldi hér upp að markmiðin ættu að vera full atvinna og efnahagslegur stöðugleiki og forsendur til að skapa möguleika á niðurgreiðslum skulda. (Gripið fram í.) Það eru nákvæmlega þær aðstæður sem stefnt er að að koma á hér og það er það sem ríkisstjórnin stefnir að, að koma hér á forsendum fyrir efnahagslegum stöðugleika og þessar aðgerðir eru liður í þeirri vinnu.

Ríkisstjórnin hefur haldið mjög vel á þessu máli og það sýnir sig nú að það voru hyggindi að bíða með aðgerðir. Það er alveg ljóst að almenningur hefði þurft að borga það mjög dýru verði ef lán hefði verið tekið strax í upphafi þessarar ágjafar í lok marsmánaðar á þeim kjörum sem þá buðust. Það er mjög mikilvægt að stjórnvöld hafa haft þol til þess að bíða og vinna að heildstæðri lausn málsins eins og nú er þegar hafist handa um með þeim gjaldmiðlasamningum sem þegar liggja fyrir og svo nú þessari lántökuheimild í kjölfarið. Íslenskt atvinnulíf og íslensk heimili hefðu þurft að bera af því gríðarlegan kostnað ef farið hefði verið út í lántöku fyrr og því er hafið yfir vafa að það var mikilvægt að fara í þetta mál af yfirvegun og rósemi.

Sú aðferð sem við beitum og erum nauðbeygð til að beita við þær aðstæður sem við búum við er að hafa nauðsynlegan viðbúnað til þess að sýna markaðsaðilum fram á að íslensk stjórnvöld vilji standa vörð um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika í landinu. Aðferðin til þess er fyrst og fremst gengisvarnir af þeim toga sem hér er lagt fram frumvarp um. Það er alveg ljóst að eina leiðin til þess að tryggja þennan viðbúnað er að hafa tiltækan aðgang að gjaldeyri sem dugar til þess að sýna að stjórnvöldum og Seðlabankanum, sem fer með framkvæmd peningamálastefnunnar, er full alvara með þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið.

Vandinn við þessa aðferðafræði er hins vegar tvíþættur í grunninn. Annars vegar kosta gengisvarnir af þessum toga mjög mikið og það er rakið í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofunnar hversu mikill kostnaður getur orðið af lántöku af þessari stærðargráðu. Ef tekið er lán þarf að finna þeim peningum ávöxtun annars staðar og ef það tekst ekki á sömu kjörum og lánið er tekið á þurfa almenningur og fyrirtækin í landinu að borga mismuninn. Þar hefur hvert prósentustig mikið að segja. Eins og fram kemur í kostnaðarumsögninni dugar 0,1% munur í útlánsvöxtum til þess að kostnaður ríkisins verður 500 milljónir, það þýðir að við 1% eru það 5.000 milljónir o.s.frv.

Þessi kostnaður er ekki bundinn við ríkissjóð. Íslenskir bankar þurfa að eiga mikið af dauðu fé sem þeir geta ekki nýtt í starfsemi sína með eðlilegum hætti vegna þess að þeir þurfa að nota þá peninga sem gengisvarnir. Gengi krónunnar er það óstöðugt að þeir þurfa að geta tryggt efnahagsreikning sinn með því að eiga aukafitulag sem þeir geta ekki nýtt. Þetta er auðvitað mikill kostnaður í starfsemi bankanna.

Önnur hætta við gengisvarnir af þessum toga er sú að þegar búið er að taka lán eins og þetta er alltaf sú hætta fyrir hendi að þeim peningum verði varið í eitthvað. Reynslan sýnir mörg skelfileg dæmi um það þegar seðlabankar hafa ráðstafað gjaldeyrisvaraforða óvarlega og jafnvel freistast til þess í hita leiksins að reyna að verja gengi sem aldrei var hægt að verja og sólunda gjaldeyrisvarasjóðnum við þær aðstæður. Kosturinn við gengisvarnir, ef þær virka, er fyrst og fremst sá að aldrei þarf að reyna á þær. Hættan við gengisvarnir af þessum toga er sú vænting sem skapast um að peningunum verði varið og einnig að möguleiki skapist á því að peningunum verði eytt til þess að bregðast við aðstæðum á markaði.

Þess vegna eigum við mikið undir því að Seðlabankinn fari varlega og ég hef fulla trú á því að hann axli hlutverk sitt vel í þessu efni en í því eru auðvitað fólgnar hættur. Það er ástæðan fyrir því að mörg ríki í kringum okkur hafa komist að þeirri niðurstöðu að gjaldmiðilskerfi á borð við það sem við búum við í dag sé ekki boðleg umgjörð fyrir alþjóðavætt efnahagslíf til langframa. Það er þess vegna sem myndast hefur sammæli margra Evrópusambandsríkja um sameiginlegan gjaldmiðil. Það er til þess að forðast þessa óhagkvæmni við að hvert ríki um sig þurfi að leggja út í þann kostnað sem felst í því að halda uppi trúverðugum gjaldmiðilsvörnum. Nú stöndum við frammi fyrir því að íslenska ríkið þarf að taka lán og það getur skapað kostnað að liggja með þá peninga. Síðan vitum við að íslenskir bankar þurfa líka að bera kostnað af því að liggja með peninga vegna gengisvarna sem ekki fæst fullnægjandi arður af.

Þetta er auðvitað kostnaður og frumvarpið er vissulega herkostnaður en þetta er ekki herkostnaður af einhverjum efnahagsmistökum eða rangri efnahagsstjórn núverandi ríkisstjórnar, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lét liggja að hér áðan. (Gripið fram í.) Þetta er herkostnaðurinn af því að reka sjálfstæðan gjaldmiðil og það þurfum við að horfast í augu við. Þetta er með öðrum orðum reikningur sem við þurfum að borga vegna þess að við erum með sjálfstæðan fljótandi gjaldmiðil í opnu, alþjóðlegu efnahagsumhverfi. Það er óhjákvæmilegt að við tökum mið af þessum kostnaði og setjum hann inn í jöfnuna þegar við tölum um kostina sem fylgja því að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil og þau tæki sem sjálfstæður gjaldmiðill veitir í ákveðnum tilvikum til sveiflujöfnunar. Við verðum að taka alla þætti inn í reikninginn, þennan herkostnað, herkostnað fyrirtækjanna, sem ekki er uppi á borðinu með sama hætti og kostnaður ríkisins, og setja þá réttu megin í þessa jöfnu ef við eigum að geta metið til fulls kosti og galla við núverandi gengisfyrirkomulag.

Virðulegi forseti. Það er enginn vafi í mínum huga um hver niðurstaðan úr þeim samanburði verður. Það er enginn vafi í mínum huga hvað útreikningurinn úr þeirri jöfnu boðar fyrir hagsmuni almennings í landinu og fyrir hagsmuni íslenskra fyrirtækja. Það er enginn vafi í mínum huga að reynsla undanfarinna mánaða sýnir svo ekki verður um villst að núverandi fyrirkomulag gjaldmiðilsmála er ekki viðunandi til langframa fyrir íslenskt samfélag.

Ég fagna því að forsætisráðherra hefur boðað úttekt á peningamálastefnunni og bind miklar vonir við hana. Það er skynsamlega að farið að horfa á reynsluna af peningamálastefnunni og að við drögum eðlilegan lærdóm af því sem við höfum upplifað á undanförnum árum. Það er mjög mikilvægt að við horfum á alla þætti málsins og við metum til fulls og af sanngirni þann herkostnað sem við berum í reynd af þessum gjaldmiðli þegar við horfum á endurskoðun peningamálastefnunnar í heild.