135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[10:51]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Óskaplega er það nú ódýrt að kenna aumingja krónunni um þetta allt saman. Það var sem sagt hún sem tók allar þessar vitlausu ákvarðanir, gerði öll þessi mistök og það er sjálfsagt krónan sem er búin að sitja aðgerðalaus í heilt ár núverandi ríkisstjórnar.

Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði að mikilvægt væri að stjórnvöld hefðu haft þol til þess að bíða. Var biðin svona ofsalega meðvituð? Var hún það þegar forsætisráðherra sagði fyrir páska að ríkisstjórnin sæi ekki ástæðu til aðgerða? Var það vegna hinnar meðvituðu biðar? Nei, það var vegna þess að ríkisstjórnin var ráðalaus og kom sér ekki að verki. Hv. þingmaður sagði að heimili og atvinnulífið hefði þurft að bera mikinn kostnað ef ekki hefði verið beðið. Bíðum við, en hvað með kostnaðinn sem þau bera og eru búin að bera vegna hinnar háu verðbólgu, vegna kjaraskerðingarinnar, vegna hækkana á verðtryggðum lánum og erlendum lánum?

Staðreyndin er sú að þetta er auðvitað akkúrat öfugt. Það átti að grípa miklu, miklu fyrr í taumana þannig að ástandið hefði aldrei orðið svona, að þetta hefði aldrei gengið svona langt. Það er það sem er að. Þess vegna þurfa ráðstafanirnar nú að vera miklum mun viðameiri og verða dýrari en þær hefðu þurft að vera ef menn hefðu tekist á við jafnvægisleysið í íslensku hagkerfi þegar hverjum manni var að verða ljóst að við vorum að missa þetta úr böndunum.

Það er einfaldlega svo að íslenskt atvinnulíf er við það að frjósa fast. Fyrirtækin eru farin út í gamaldags vöruviðskipti, byggingarfyrirtæki bjóða óseldar íbúðir sem greiðslur fyrir aðföng og bankarnir gáfu ríkisstjórninni það til kynna í byrjun þessa mánaðar að þeir sæju ekki fram á að þeir hefðu maímánuð af nema einhverjar góðar fréttir kæmu. Þetta er nú bara þannig.

Ég held að stjórnarliðar ættu hvorki að reyna að kenna krónunni um mistök og dauðyflishátt bæði fyrrverandi (Forseti hringir.) og núverandi ríkisstjórnar og þaðan af síður að reyna að halda (Forseti hringir.) því fram að biðin hafi verið meðvituð og gáfuleg.