135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[10:53]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon getur haft öll þau gífuryrði sem hann vill um þetta mál. Staðreyndin er sú að ef ríkisstjórnin hefði hrokkið upp af standinum við hávær köll hans og félaga hans í stjórnarandstöðunni um tafarlausar aðgerðir og tafarlausar lántökur þegar þessi ágjöf hófst undir lok marsmánaðar og í byrjun apríl, þá liggur það alveg fyrir að reikningur þjóðarbúsins af lántöku á þeim tímapunkti í samanburði við í dag hefði numið tugum milljarða.

Hv. þingmaður talar eins og við gætum horft á þær staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir núna úr samhengi við allar staðreyndir í alþjóðlegu efnahagsumhverfi. Svo er ekki, hv. þingmaður, það er auðvitað svo að við búum við alþjóðlegan lánsfjárskort. Síðan er það líka staðreynd að við búum við gjaldmiðil sem hefur verið með gengi undanfarin ár sem endurspeglar aðra þætti en verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi. Það er einnig ljóst að gengi krónunnar hefur ráðist að verulegu leyti af eftirspurn, skammtímaeftirspurn, erlendra aðila í háa vexti. Þetta er staðreynd sem við búum við. Þetta er staðreynd sem hefur líka skapað íslenskum heimilum og íslenskum fyrirtækjum mikinn kostnað. Þetta verðum við að ræða allt í samhengi og af sanngirni. (Gripið fram í.)

Það er mjög rangt af hv. þingmanni að stilla málum upp með þessum hætti. Ríkisstjórnin beið réttilega og hljóp ekki til þegar ágjöfin kom í lok mars og byrjun apríl. Það er algjörlega ljóst að þau lánakjör sem ríkinu bjóðast í dag á alþjóðlegum mörkuðum sanna að það var hárrétt að doka við.