135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[11:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að gildi svona ráðstafana hlýtur fyrst og fremst að eiga að felast í þeim sjálfum, í hinum efnislegu áhrifum þeirra. En við vitum það vel að hinn sálræni þáttur, að andrúmsloftið, að tiltrúin, skipar hér mjög stóran sess, það verður ekkert horft fram hjá því. Við höfum rekist á það á undanförnum mánuðum hversu vandasamt það getur stundum verið að fara út í einhverjar aðgerðir og það er svo stutt á milli þess sem við viljum að umheimurinn upplifi sem trúverðugar og nægjanlega markvissar og nægjanlega umfangsmiklar aðgerðir og hins sem getur verkað eins og örvæntingarviðbrögð, eins og krísuráðstafanir. Þessa línu verða menn að hafa í huga.

Þess vegna skiptir málflutningurinn líka máli, þess vegna skiptir það líka máli í hvaða samhengi ríkisstjórn setur hlutina. Ég held að ríkisstjórnin hefði — af því að þetta er það stór atburður og öllum mönnum ljóst að svona lagað verður ekki endurtekið bara með nokkurra daga millibili, menn taka ekki allt að 500 milljarða kr. lán bara sisvona af og til þegar þeir eru í góðu skapi. Nei, þess vegna skiptir alveg gríðarlega miklu máli að búinn verði til eins mikill trúverðugleiki í kringum þetta núna og mögulegt er því að það bara — ég vil næstum leyfa mér að segja að það skipti öllu máli að þessu verði rétt tekið og að menn komi fram samstilltir og hafi kraftmikinn rökstuðning fyrir því að þetta muni duga ásamt með þá öðru sem menn ætla sér hér á komandi mánuðum og missirum til þess að ná tökum á ástandinu.

Allir þurfa að leggja sitt af mörkum og þess vegna greiðum við götu þessa máls hér í gegnum þingið, allt annað væri hið hreina óráð. Það stendur síst á okkur að (Forseti hringir.) fylgja eftir aðgerðum sem hníga í og ganga í nákvæmlega þá átt sem við (Forseti hringir.) höfum talað fyrir að gert væri undanfarin ár.