135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[11:11]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nákvæmlega rétt hjá hv. þingmanni, þetta er afskaplega fín lína sem hér er um að ræða. Þess vegna þurfa menn að fara varlega í því sem þeir segja. Menn þurfa að segja þá hluti sem þeir ætlast til og treysta á að fólk hafi eftir og gera sér grein fyrir því að það sem við segjum hér getur verið þýtt á fjölda tungumála og birt víða annars staðar.

Það sem skiptir því máli í þessari umræðu er það að við erum að óska eftir heimild til að taka þetta lán til þess að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn, til þess að styrkja virkni innlendra lánamarkaða svo að Seðlabankinn hafi betri og sterkari tæki til að bregðast við ef eitthvað ber út af. Ekki vegna þess að við búumst við því að eitthvað beri út af heldur vegna þess að í þeirri stöðu sem við erum nú í vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu þurfum við að vera tilbúin til að bregðast við á sterkari og kraftmeiri hátt en áður hefur verið ætlast til. Það þarf ekkert að hafa mjög mörg orð um það.

Ríkisstjórnin hefur reynt að fara fram af varfærni í þessu en þó af ákveðni og Seðlabankinn hefur gert það sömuleiðis. Stór skref hafa verið stigin sem skipta miklu máli og þá sérstaklega samningarnir við norrænu seðlabankana og nú erum við að leggja upp með grundvöllinn fyrir næstu skref sem ekki skipta síður miklu máli. Ég vonast til að vel takist til með þau og þá verður viðbúnaður Seðlabankans í samhengi við það sem við þurfum á að halda, herra forseti.