135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[11:13]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sagði hér í seinni ræðu sinni að við þyrftum að fara varlega í því sem við segjum í sambandi við þetta mál og það er nokkuð til í því. Þá vil ég spyrja hvort hann sé sammála því sem kom fram hjá talsmanni samstarfsflokksins hér rétt áðan að frumvarpið væri fram komið vegna — eða þetta væri í raun herkostnaður af því að reka sjálfstæðan gjaldmiðil, það að taka lán upp á 500 milljarða. Það væri mjög fróðlegt að vita hvort hann er sammála samstarfsflokknum í þessum efnum og hvort honum hafi fundist óvarlega talað í því.

Síðan ætla ég að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því hvar það land er, þó við förum ekki út fyrir Evrópu, sem er með eitthvað sambærilegar aðstæður og Ísland nú þessa dagana. Hann vildi meina að þessar aðstæður hér væru náttúrlega bara út af alþjóðlegri lánakreppu og alþjóðlegum aðstæðum. Hvar er það land þar sem stýrivextir eru 15,5% og verðbólgan, ja, hún er meiri en hefur verið í 18 ár og gengið hefur fallið um ein 30% frá áramótum? (Gripið fram í.) Hvar er þetta land sem hæstv. ráðherra er að bera okkur saman við í þessu máli? (Gripið fram í.)