135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

fiskeldi.

530. mál
[11:37]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil segja nokkur orð um þetta frumvarp sem var til umfjöllunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þar sem ég á sæti þó að ég væri því miður ekki við afgreiðslu heldur hv. þm. Birkir Jón Jónsson. En við framsóknarmenn styðjum þetta mál og erum náttúrlega mjög hlynnt þessari atvinnugrein, fiskeldinu og teljum að þetta sé þó a.m.k. viðleitni hæstv. ríkisstjórnar til að sýna einhvern lit í atvinnumálum, annað en að veiða 40 hrefnur sem hefur auðvitað líka verið svona viðleitni í atvinnumálum. En þetta er þó a.m.k. lagarammi í kringum þessa atvinnugrein sem þörf er á og skiptir máli.

Hins vegar er ég óánægð með það hversu lítið heyrist frá hæstv. ráðherra og ríkisstjórn í sambandi við þorskeldið. Það hefur verið nefnd að störfum í þeim efnum en hún hefur ekki skilað áliti eftir því sem ég best veit og það heyrist ákaflega lítið um það hver stefna ríkisstjórnarinnar er almennt í þorskeldismálum. Þar tel ég að við eigum að spýta í lófana og sýna einhver viðbrögð við því, m.a. með því að það þarf að draga úr þorskveiðum. Þar erum við með markaðinn, við þekkjum hann og með því að efla þorskeldi í landinu gætum við líka verið að gera góða hluti fyrir landsbyggðina. En það heyrist ákaflega lítið frá ríkisstjórninni í þeim efnum.

En varðandi þetta mál þá ræddum við það í nefnd og ég styð það og við framsóknarmenn og það er mikilvægt að mínu mati að skapa þessari atvinnugrein þann lagaramma sem hér um ræðir.