135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

fiskeldi.

530. mál
[11:39]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Sá þáttur sem mig langaði að ræða sérstaklega í þessu sambandi er undirbúningsþátturinn fyrir fiskeldi almennt. Þá er ég einkum að tala um fiskeldi í fjörðum, hvort heldur það er laxeldi eða þorskeldi sem er vaxandi núna hér á landi. Ég vil taka það fram í upphafi máls að ég er út af fyrir sig mjög hlynntur því að eldi þróist sem allra best hér og takist sem best en jafnframt verði gerð sú krafa að það valdi engum eða sem minnstum skaða.

Ég spyr því vegna þessa máls: Hvernig er staðið að rannsóknum í einstökum fjörðum, flóum eða vogum þar sem menn hafa áhuga á að koma fyrir fiskeldiskvíum? Hefur farið fram skipuleg úttekt á flóum og fjörðum hér á landi með tilliti til þess hvaða firðir henta betur en aðrir til fiskeldis, vegna þess m.a. að straumakerfið er gott og sjóskiptin í góðu lagi, botnlag og annað slíkt? Hvaða undirbúningur hefur í raun og veru farið fram til að meta það hvaða skilyrði, náttúruleg skilyrði eru best fyrir fiskeldið með tilliti til þess að sem minnstur skaði verði á lífríkinu og væntanlega enginn? En sem betur fer er víðast að ekki sjáanlegt að fiskeldið valdi neinum sérstökum skaða. Ég held samt, hæstv. forseti, að það sé afar nauðsynlegt að fara skipulega í gegnum það hvaða svæði á landinu henta sérstaklega vel til fiskeldis og hvaða aðstæður þurfa að vera til staðar til að menn velji fiskeldiskvíunum sem bestan stað miðað við að enginn skaði hljótist af í ríki náttúrunnar.

Ég segi þetta vegna þess að það hafa ekki farið fram miklar og skipulegar rannsóknir á grunnslóð Íslands. Sem betur fer eru menn að vakna talsvert til vitundar um það. Það má nefna verkefni eins og BioPol á Skagaströnd, sjávarrannsóknarsetrið Vör við Breiðafjörð, auknar hafrannsóknir vestur á Ísafirði og víðar á landinu, í Vestmannaeyjum og Eyjafirði. Sem betur fer hafa þessar rannsóknir verið að aukast á undanförnum árum en ég hef samt ekki komist yfir eða séð neina sérstaka úttekt þar sem menn hafa tekið hvert landsvæði fyrir sig og rannsakað það með tilliti til þess hvar menn hygðust velja fiskeldinu stað og hvað menn teldu að viðkomandi firðir þyldu mikla niðursetningu eldiskvía án þess að lífríkinu væri nein hætta búin.

Nú er það svo að á öllum fóðurstöðum, ef maður getur orðað það sem svo, það er kannski rétt að tala fóðurstaði vegna þess að menn hafa gert tilraunir með að bera fóður á ákveðna staði í fjörðum. Ég nefni Stöðvarfjörð og Arnarfjörð sem dæmi um svæði þar sem menn hafa borið niður fóður til að fá fiskinn til að sækja á ákveðna staði og síðan hafa verið gerðar tilraunir til að veiða fiskinn eða ná honum á ákveðnum árstímum og kannski einkanlega þegar hann er verðmætastur og markaðsaðstæður eru bestar. Síðan höfum við eldiskvíarnar þar sem menn verka fisk í eldiskvíar og það er gert með tvennum hætti, alla vega varðandi þorskeldi. Annars vegar eru menn að fikra sig áfram með að ala seiði frá upphafi, úr hrogni, og rækta seiðin upp í eldisstöðvum og hins vegar að ná seiðum úr ríki náttúrunnar í september og október ár hvert þegar þau eru farin að leita botns á grunnsævinu, kannski aðeins þriggja, fjögurra sentimetra löng, og setja þau í eldisstöðvar og þar hafa menn verið að ná mjög athyglisverðum árangri að mínu viti. Ef menn trúa þeim fróðleik í hafrannsóknavísindunum að einungis mjög lítill hluti slíkra seiða, fjögurra, fimm sentimetra löng, lifi af fyrsta veturinn þá tel ég að þær eldistilraunir sem gerðar hafa verið séu afar merkilegar þegar menn eru farnir að ná því jafnvel að 60–70% af þeim seiðum sem þeir settu í kerin eru lifandi eftir veturinn til sleppingar að vori. Það er enginn smáárangur ef litið er til þess seiðafjölda sem fiskifræðingar halda fram að lifi af fyrsta veturinn við náttúrulegar aðstæður og er í raun og veru mjög merkilegt ef svo er.

Reyndar er fullyrðingin um það hvað lifir af seiðum yfir hvern vetur bara fullyrðing og byggir einfaldlega á einhvers konar meðaltalsútreikningum en náttúran er sjaldan neitt meðaltal, hún er ýmist góð eða slæm. Það geta komið mörg góð ár og hlý ár eins og við upplifum núna þar sem sjórinn er hlýr og væntanlega lifir meira af seiðum í ríki náttúrunnar veturinn af við hlýjar aðstæður en í köldu árferði. Þetta er samt allt samspil þess að aðrir fiskar og jafnvel þorskurinn sjálfur leggja sér eigin seiði til munns og þar kemur auðvitað afránið inn í spilið.

Ég hef oft spurt þeirrar spurningar til að setja málið í eitthvert samhengi: Hvað skyldi einn fjörður í vestanverðu Ísafjarðardjúpi gefa af sér inn í lífríki Íslands við stækkun þorskstofnsins? Hvers vegna nefni ég þetta? Það er vegna þess að vitað er að nokkur svæði á landinu bera meira magn fiskseiða en önnur. Hvers vegna vita menn það? Menn vita það vegna rækjuveiðanna, vegna þess að rækjuveiðar voru stundaðar í áratugi vita menn að seiði hafa alist upp í Ísafirði og í Ísafjarðardjúpi og fjörðum þar, í Húnaflóa og innfjörðum þar, í Arnarfirði og fleiri fjörðum. Þetta vita menn vegna þess að iðulega hefur þurft að loka þessum svæðum vegna mikils þorskseiðafjölda eða jafnvel ýsu og annarra fisktegunda. Það var auðvitað vegna þess sem menn fór að gera tilraunir með það vestur í Ísafjarðardjúpi að veiða þessi seiði, sem áratugaþekking rækjusjómanna byggði á, og voru til staðar í djúpinu. Þess vegna hafa seiðaveiðar verið stundaðar þar á undanförnum árum og með þeim árangri sem ég hef verið að lýsa, að nýting á seiðunum frá því sem var þegar menn reyndu fyrst að ala þau hefur margfaldast.

En það kemur alltaf að spurningunni: Hvað gerist í lífríkinu þegar við setjum niður fiskeldisstöðvar og förum að ala þar fisk? Það er auðvitað þannig að fóður fellur til ekki bara í fiskeldisstöðinni heldur líka á botninum í kring o.s.frv. Ný tækni færir okkur alltaf meiri og meiri þekkingu og nú síðast kvikmyndatæknin þar sem menn eru farnir að fylgjast með fiskinum í sjókvíunum, hvernig hann tekur æti og í hvaða lögum hann heldur sig í sjókvíunum og hversu mikið fellur frá af ætinu o.s.frv. og þar hafa ýmsar rannsóknir farið fram. En það sem ég er að spyrja um í þessari umræðu, hæstv. forseti, er þetta: Hvað hefur verið lagt fram hér á landi af heildstæðum rannsóknum um það í hvaða forgangsröð menn setja eldið? Í hvaða fjörðum ætla menn að hafa það? Hvaða firðir eru bestir? Hvers vegna eru þeir bestir o.s.frv.? Menn þurfa að fara að svara því þegar verið er að ræða um jafnveigamikinn þátt og við erum væntanlega að stefna að hér í framtíðinni, að geta verið hér með fiskeldi í stórum stíl og að það sé þá vel rannsakað, vel skipulagt og vel undirbyggt. Ég segi þetta vegna þess að ég tel að það sé mikill fengur í því að stunda fiskeldi ef rétt er að því staðið og það er skipulagt með skynsamlegum hætti. Auðvitað erum við alltaf að læra af því fiskeldi sem þegar er stundað hér á landi, hvort sem það er laxeldið og sú reynsla sem þar hefur fengist í sjó eða þorskeldið sem við stundum núna í miklum mæli.

Ef ég man rétt, hæstv. forseti, er áætlað að taka 500 tonn út úr hinum almenna fiskkvóta eða bæta við — mér er alveg sama hvort er, hef engar áhyggjur af því — til þess að úthluta fyrirtækjum í fiskeldi, svokallaðir fiskeldiskvótar. Þetta er auðvitað jákvætt og verið er að ýta þarna undir nýja atvinnustarfsemi og ekkert nema gott um það segja. Ef menn vilja gera það með því að úthluta 500 tonnum af kvóta í það verkefni, þá gera menn það og það er bara jákvæður stuðningur við það að efla fiskeldið. En í þessu sambandi hef ég furðað mig afar mikið á ákveðnu máli sem er reyndar að koma upp þessa dagana með mjög neikvæðum hætti. Það eru hinar svokölluðu túristaveiðar þar sem menn hafa farið þá leið við þróun nýrrar atvinnugreinar að láta fyrirtækin keppa á kvótaleigumarkaðnum, að láta fyrirtæki sem eru að stofna til nýrrar atvinnugreinar og nýrrar atvinnuuppbyggingar keppa á kvótaleigumarkaðnum við atvinnumennina sem eru þar fyrir. Með hvaða afleiðingum? Nákvæmlega þeim afleiðingum sem við vöruðum við hér í umræðum, margir þingmenn, að það væri óeðlilegt að fara þá leið að hefta þessa atvinnugrein með því að setja á hana kvótakvaðir. Að hefta þessa nýju atvinnugrein, sem allir eru sammála um að standa með, með því að setja á hana þær kvaðir að þurfa að ná til sín kvóta á markaði í stað þess að taka annaðhvort einhvern kvóta út fyrir sviga eða hafa engar áhyggjur af kvótareikningnum meðan að þessi atvinnugrein væri að þróast til næstu fjögurra til fimm ára. Í fiskeldinu hafa menn ákveðið að taka kvóta út fyrir sviga og úthluta honum til að efla atvinnugreinina.

Ég vænti þess að menn endurskoði þá stöðu sem upp er komin varðandi túristaveiðarnar. Þar er hreinlega verið að rústa atvinnugrein þeirra manna sem eru kvótalitlir, og sérstaklega á smábátunum vegna þess að þessi kvóti er yfirleitt tekinn úr smábátakerfinu, og koma í veg fyrir að þeir geti leigt heimildir sínar á einhverju verði sem hægt er að lifa við. Reyndar er það mikil spurning hvort menn geta nokkurn tímann lifað við þetta kvótaleiguverð eins og það er. En þegar kvótaleiguverðið í smábátakerfinu hrekkur úr rúmum 200 kalli upp í 250 kall vegna þess að sjóstangaveiðifyrirtækin eru komin þar inn og fá borgað sérstaklega fyrir að gera út fyrir túristana, þá er auðvitað verið að skekkja samkeppnisstöðu þeirra sem hafa haft þetta að raunverulegri atvinnu sinni og þessara nýju fyrirtækja.

Nú er ég mikill hvatamaður þess að þessi nýju fyrirtæki fái að þróast og eflast en ég tel að taka eigi kvótareikning þeirra út fyrir sviga meðan þau eru að byggja upp starfsemi sína. Menn geti svo valið um það á næstu mánuðum og missirum eða árum hvort kvótasetja eigi þau síðar á einhvern hátt eða úthluta þeim sérstökum kvóta eins og gert er hér með fiskeldið til að efla þá starfsemi. Ég hefði talið að það væri kannski ekkert óeðlilegt ef kvótareikningurinn er svona nákvæmur að hann hallist á hliðina hjá Hafrannsóknastofnun við 500 tonn. Hann hallast reyndar ekkert á hliðina þegar landað er hafróafla utan kerfisins. Þá er Hafrannsóknastofnun alveg sama, enda fær hún stóran hluta af þeim verðmætum sem þar koma inn, þó að þar komi nokkur hundruð tonn eða jafnvel þúsundir tonna utan kvótareikningsins.

Ég mótmæli því harðlega hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að fyrirkomulagi þessara túristaveiða. Ég vil koma inn á það í þessu samhengi þar sem við erum að tala um fiskeldi og kvótaúthlutun í sambandi við það og tel að þau mál þurfi algjörrar uppstokkunar við. Það er mjög óeðlilegt hvernig samkeppnisstaðan þar er að verða. En aðalerindi mitt hér var að tala um rannsóknir í lífríki sjávar og undirbyggingu þess og hvernig við getum staðið sem best að því að efla fiskeldi hér á landi.