135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

fiskeldi.

530. mál
[11:56]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var ágætisræða hjá hv. þingmanni og ég hef í rauninni engar athugasemdir við hana. En það sem ég vildi koma á framfæri, af því að hann talaði um að mikilvægt væri að tekin yrði ákvörðun um hvar setja mætti niður fiskeldi og hvar ekki, þá var náttúrlega tekist á um þessi mál í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það var tekist á um það á hv. Alþingi hvort yfirleitt ætti að heimila fiskeldi við strendur Íslands og stjórnarandstaðan hjálpaði ekki ríkisstjórninni mikið í þeim efnum að koma fiskeldinu fyrir. Ég er ekki að tala um hv. þingmann sem hér talaði í því sambandi heldur kannski frekar hina tvo stjórnarandstöðuflokkana sem þá voru. Niðurstaðan var sú að þáverandi landbúnaðarráðherra gaf út reglugerð sem tók á því hvar heimilt væri að setja niður fiskeldi og hvar ekki. Það var að sjálfsögðu gert vegna hættunnar sem af fiskeldi getur stafað í sambandi við veiðiár sem eru okkur náttúrlega ákaflega dýrmætar og mikilvægar. Ég tel mikilvægt að þessi ákvörðun hafi verið tekin á þeim tíma og ég veit ekki betur en að fyrrnefnd reglugerð sé enn í gildi. Ég hef ekki heyrt að hún hafi verið afnumin eða neitt gerst í þeim efnum. Ég vildi bara að þetta kæmi fram hér í umræðunni.