135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

flutningur stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna á sviði lax- og silungsveiði o.fl. til Fiskistofu.

531. mál
[12:07]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er eitt af málum í þrennu hv. formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Það sem vekur athygli mína er að þrír stjórnarsinnar skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara. Ég var ekki viðstödd lokaafgreiðslu málsins en það var varamaður minn, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, sem tók þetta í afgreiðslunni og skrifaði undir án fyrirvara. Það væri mjög forvitnilegt að vita, vegna þess að tveir þessara hv. þingmanna eru ekki í þingsalnum og einn þeirra situr í forsetastól sem stendur, hvort hv. þingmaður og formaður nefndarinnar getur greint þingheimi frá því hvað veldur að þrír stjórnarsinnar skuli skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara þrátt fyrir að búið sé að leggja fram 11 breytingartillögur við málið. Það er spurning hvort þær hefðu þurft að vera 12 til þess að þeir hefðu getað verið með. Hvernig skýrir hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þennan mikla fyrirvara stjórnarsinna? Þetta er kannski dálítið dæmigert fyrir ríkisstjórnina því hún tekur hlutina ekki allt of alvarlega. Það er lausung og stjórnarflokkarnir eru yfirleitt alltaf ósammála í öllum málum en þarna eru bæði sjálfstæðismenn og einn samfylkingarmaður sem hafa ekki treyst sér til að styðja þetta mál fullkomlega. Hvað veldur?