135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

flutningur stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna á sviði lax- og silungsveiði o.fl. til Fiskistofu.

531. mál
[12:08]
Hlusta

Frsm. sjútv.- og landbn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má kannski segja sem svo að þessir fyrirvarar komi fram að við höfðum e.t.v. ekki nægilegan tíma til að ræða málið í þaula. Menn vildu vera tilbúnir með sinn fyrirvara ef eitthvað fleira kæmi upp í umræðunni á þeim tíma sem menn höfðu fram að þessari umræðu til að fjalla um málið. En ég reikna með að þessir þingmenn geri grein fyrir sínum fyrirvara.

Hins vegar var umræðan nokkuð mikil í nefndinni um heimild Veiðimálastofnunar til að eiga aðild að rannsóknafyrirtækjum og það var eiginlega skaði að því að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir gat ekki verið með í þeirri umræðu. En eins og kemur fram í nefndarálitinu og gerð er skilmerkilega grein fyrir er þetta sá háttur sem hefur verið hafður á varðandi rannsókna- og þróunarstofnanir á vegum ríkisins og þess vegna er þetta í sjálfu sér ekki breyting frá því formi sem haft hefur verið. Hins vegar var umræðan dálítið í þá veru að þetta væri kannski eitthvað sem menn ættu að skoða til framtíðar, hvort það væri rétt form að leyfa ríkisfyrirtækjum á þessu sviði að eiga aðild að fyrirtækjum sem eru ýmist hlutafélög eða fyrirtæki sem ekki er í rauninni ætlað að bera arð en hafa það verkefni að þróa áfram hugmyndir sem byggðar eru á þeim rannsóknaverkefnum sem unnar eru í rannsóknastofnuninni.