135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

Fiskræktarsjóður.

554. mál
[12:28]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Mér fer að líða eins og Kató gamla: Auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði.

Ég hef sömu athugasemdir og við hin fyrri frumvörp um fiskeldið og flutning stjórnsýslu og eftirlitsverkefna. Þetta frumvarp ber brátt að og ég hefði viljað gaumgæfa það betur. Það eru sjónarhorn í þessu máli sem þyrfti að skoða heildstætt að mínu mati. Umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu í meðförum sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, flestar til bóta. Sérstaklega fagna ég breytingu um kæruleiðirnar, að þessar úthlutanir séu kæranlegar innan stjórnsýslunnar eins og vera ber, þessi meðhöndlun fjár sé gagnsæ og öllum ljós. En ég verð að segja það hér í þessu samhengi að ég hefði viljað skoða miklu betur í meðhöndlun nefndarinnar stöðu rannsókna í fiskeldi, í lax- og silungsveiðum og þar fram eftir götunum. Sá málaflokkur er því miður í fjársvelti. Verulegt fjármagn vantar inn í þennan málaflokk, inn í rannsóknirnar. Að því hefði ráðuneytið getað hugað og úr því hefðum við getað bætt í meðförum nefndarinnar ef við hefðum gefið okkur betri tíma.

Hér er verið að aflétta gjöldum af tilteknum orkufyrirtækjum. Þannig hagaði til að það voru einungis sum orkufyrirtæki sem greiddu þetta gjald en ekki önnur, ekki gufuaflsvirkjanir og þar fram eftir götunum. Ég spurði sjálfan mig í því samhengi og spyr enn: Var ekki allt eins eðlilegt að útfæra gjaldið yfir á öll orkufyrirtæki? Ég spyr líka: Er ekki eðlilegt að taka upp gjald á allar auðlindir? Ég er ekki að tala um auðlindagjald heldur einhvers konar umhverfisgjald sem yrði lagt sérstaklega á vegna þess að okkur vantar fjármuni í rannsóknir. Okkur vantar fjármuni í rannsóknir á lífríki þessa lands í heild sinni og það brennur sérstaklega á hæstv. sjávarútvegsráðherra og ástandi fiskstofna við landið. Ég get alveg hugsað mér að taka upp umhverfisgjald sem færi í það að kanna lífríkið, kanna vistkerfið í heild sinni því við vitum allt of lítið. Og af því að við vitum þetta lítið þá lendum við iðulega í háskalegum deilum, til að mynda um fiskveiðistjórnarkerfið. Og það er afar brýnt að verulegu fé verði ráðstafað til umhverfismála, til rannsókna á lífríki landsins.

Ég verð að lokum, herra forseti, að upplýsa að mér hefur verið tjáð að ákveðin orkufyrirtæki sem voru gjaldskyld samkvæmt gildandi lögum, sem hér stendur til að breyta, hafi ekki greitt þetta gjald og hafi komist upp með það. Ég spyr hv. formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hvort þetta sé rétt. Ef svo er munu þessar skuldir verða gefnar upp?