135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

fullgilding Palermó-samnings gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.

493. mál
[13:11]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon snýr aðeins út úr orðum mínum. Það sem ég á við þegar ég nálgast málið með þessum hætti er að þegar rætt er um varnarmál eða öryggismál gagnrýnir hv. þingmaður hvað Íslendingar setja mikið fjármagn þar, honum finnst það vera röng áhersla. Hann veit mætavel að ég er honum að mörgu leyti sammála í því. Ég hef tjáð mig um það og skrifað um að ég tel að við séum ekki með réttar áherslur þegar við setjum mikla peninga í þotuæfingar suður á velli. Hitt er svo annað mál, og við getum verið alveg sammála um það, að skoða þarf almennu löggæsluna í landinu og reyna að efla hana og styrkja eins og við getum. En við tölum hér um mál sem tengjast alþjóðlegri glæpastarfsemi. Þar gagnrýni ég málflutning hv. þingmanns og flokks hans, Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs. Þegar rætt er um að efla þær stofnanir, greiningardeild, sérsveitina og fleira, þá sjá hv. þingmenn Vinstri grænna því allt til foráttu og tala það niður. Þeir gera úr því einhverja mynd um hervæðingu og afbaka hana og þær aðgerðir sem eru nákvæmlega til þess fallnar að efla þá starfsemi sem okkur er bráðnauðsyn á að efla. Þær eru einmitt hugsaðar til að stemma stigu við vaxandi vændi, við hugsanlegum eiturlyfjainnflutningi, við spilavítum og spilamennsku og öllu því sem tengist starfsemi af því tagi.