135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

fullgilding Palermó-samnings gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.

493. mál
[13:14]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt. Við höfum gagnrýnt fjárútlát til tiltekinna tilgreindra hluta eins og við höfum áður gert, t.d. það sem við teljum vera tilgangslausar heræfingar og er ástæðulaust að sóa fjármunum í það. Það kann að vera að það hafi komið við snöggan blett í brjósti hv. þingmanns þegar ég hef stundum leyft mér að nefna í staðinn að við ættum að ráðstafa meiri fjármunum til almennrar löggæslu, til björgunarstarfsemi Landhelgisgæslunnar og til að efla og búa betur að björgunarsveitunum í landinu. Eru það ekki þær sem er kallað í þegar eitthvað bjátar á? (Gripið fram í.) Já, ég þykist vita að hv. þingmaður viti eitthvað um það. Við höfum ekki lagst gegn því að almennur viðbúnaður lögreglu væri efldur í þessum efnum. En það á ekki bara að snúa að ríkislögreglustjóra einum. Þar þarf að huga að almennu lögreglunni líka og löggæslunni, að lögreglustjóraembættunum t.d. á höfuðborgarsvæðinu eða þess vegna á Suðurnesjum. (Gripið fram í.) Það er tollurinn og fleiri aðilar sem koma að málum hér og allt stoðkerfið sem ég nefni. Það er ekki hægt að hrópa bara „alþjóðleg glæpastarfsemi“ og segja að þar með séu komin rök fyrir því að ríkislögreglustjóri sé eina embættið í landinu sem fái stórauknar fjárveitingar ár eftir ár. Jafnvel þó að viss starfsemi þar sé mikilvæg í þessu sambandi þá réttlætir það ekki að einblína bara á hlutverk þess embættis. Eins og ég sagði áður eru ýmis önnur embætti sem gegna hér veigamiklu hlutverki. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur verið sá aðili sem hefur sérhæft sig og skipulagt sig í því að takast á við vændi, við kynlífsafbrot. Og rétt eins og björgunarsveitirnar eru mikilvægar á sínu sviði þá vinna áhugamannasamtök og félagasamtök eins og Stígamót algerlega ómetanlegt starf þegar kemur að því að glíma við afleiðingar þessara hluta og það þarf að búa vel að þeim líka.