135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

breyting á samningi um takmörkun ábyrgðar á sjóréttarkröfum.

498. mál
[13:18]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir það sem fram kom í framsögu formanns utanríkismálanefndar. Ég er orðinn mjög sannfærður um að það er rétt að við staðfestum þessa bókun. Ástæðan er m.a. og ekki síst sú að ég held að við þurfum að fara að taka mjög alvarlega þær aðstæður sem þegar hafa skapast og eiga kannski eftir að gera í enn ríkari mæli á komandi árum og varða umferð og siglingar skipa í nágrenni við strendur okkar og í okkar viðkvæma lífríki. Það á að mínu mati ekki að koma til neinna álita að við veitum nokkurn afslátt af því að fullnægjandi tryggingar séu í öllum tilvikum áskildar þegar skip sigla í nágrenni við landið eða til landsins og frá því. Ég tala nú ekki um ef þeir tímar eru í vændum, sem sumir telja, að siglingar skipa með stóra og hættulega farma, t.d. olíufarma, muni verða æ algengari. Við höfum verið minnt á það nokkrum sinnum á undanförnum árum hversu alvarlegar aðstæður geta komið upp ef stór skip lenda uppi í fjörum. Þá þarf að vera skýrt að fullnægjandi tryggingar séu til staðar til að ráðast í þær björgunaraðgerðir og/eða kljást við mengun, fjarlægja, flytja á brott eða eyða, eða gera skip skaðlaus sem hafa sokkið, brotnað, strandað eða hafa verið yfirgefin og allt þar fram eftir götunum.

Því væri það í rauninni ákveðið gat í þann viðbúnað sem við höfum ætlað okkur að viðhafa í þessum efnum, samanber lög um verndun hafs og stranda og fleira sem hér hefur verið aðhafst í þeim efnum til að verjast mengun og tjóni af slíkum ástæðum, ef ekki væri tryggð fullnægjandi staða til að geta áskilið tryggingar og fullnægjandi stöðu stjórnvalda gagnvart því á hverjum tíma, að kostnaður yrði ekki til þess að hindra að ráðist væri í nauðsynlegar aðgerðir. Þannig getur háttað að skip séu að sigla sem flagga hentifánum eða koma frá fjarlægum löndum þar sem ekki er endilega á það að treysta að heima fyrir sé nægjanlegur viðbúnaður í þessum efnum eða ákvæði fullnægjandi og þá þurfum við að geta haft í okkar eigin rétti stöðu til þess að tryggja að þegar kemur að umferð við Ísland höfum við alltaf tryggingu fyrir því að slíkir hlutir séu í lagi.

Eðlilega horfa útgerðaraðilar í kostnað og þær umræður komu vissulega upp í utanríkismálanefnd. Að sjálfsögðu er rétt að fara yfir það og hlusta á öll sjónarmið í þeim efnum en viðkvæmni fyrir því að skipafélög eða útgerðaraðilar verði að vera með fullnægjandi tryggingar má ekki leiða til þess að einhver slys verði á hina hliðina, að kostnaðurinn vefjist fyrir mönnum þegar að því kemur að bregðast við vá eða hættu eða hreinsa upp ef óhöpp hafa orðið, sem því miður er alltaf hætta á að geti gerst þó að við vonum auðvitað að það sé sem sjaldnast. Við höfum verið tiltölulega heppin í þeim efnum að hér hafi ekki orðið meiri háttar mengunarslys en við getum aldrei treyst á að við verðum svo lánsöm um aldur og ævi. Eins og menn hafa verið að kortleggja hlutina og möguleikana á stórauknum siglingum í nágrenni við landið er mjög mikilvægt að þessi viðbúnaður sé allur í lagi. Hugmyndir sem komu upp á vissu stigi í nefndinni að e.t.v. væri ekki ástæða til að aðhafast í þessum efnum að svo stöddu, ég hef sannfærst um að þær séu ekki fullnægjandi rök fyrir því og einmitt þess vegna eigum við að gera það sem lagt er til af hálfu utanríkismálanefndar.