135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

fullgilding þriggja Haag-samninga á sviði réttarfars.

499. mál
[13:23]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu þriggja Haag-samninga á sviði réttarfars.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti frá utanríkisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og frá réttarfarsnefnd.

Umsagna var leitað hjá nokkrum aðilum, en engar bárust.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á þremur samningum á sviði réttarfars. Þeir varða einkamálaréttarfar, birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum og öflun sönnunargagna erlendis í einkamálum og verslunarmálum. Þessir samningar koma í stað samnings sem gerður var á vegum Haag-ráðstefnunnar um einkamálaréttarfar frá árinu 1905. Meginmarkmið þeirra er að efla samvinnu milli ríkja til að greiða fyrir rekstri dómsmála. Þannig verði rutt úr vegi hindrunum milli ríkja vegna ólíkra réttarkerfa og réttaröryggi eflt þegar dómsmál varða aðila og hagsmuni í fleiri ríkjum.

Nefndin vekur athygli á því að dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um meðferð einkamála, en breytingarnar leiðir af samningunum þremur. Það frumvarp er til meðferðar í allsherjarnefnd.

Utanríkismálanefnd leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt.