135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

staðfesting ákvörðunar nr. 20/2007 um breytingu á IX. og XXII. viðauka við EES-samninginn.

557. mál
[13:25]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2007.

Í meðförum sínum á þessu máli fékk utanríkismálanefnd fulltrúa frá utanríkisráðuneyti og fjármálaráðuneyti á sinn fund.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka og XXII. viðauka við EES-samninginn og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/46/EB frá 14. júní 2006 um breytingu á tilskipunum ráðsins um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð, um samstæðureikninga, um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana og um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga.

Tilskipunin miðar að því að auka trúverðugleika á fjárhagsupplýsingum fyrirtækja, m.a. með því að lagðar eru auknar skyldur og aukin ábyrgð á stjórnarmenn félaga vegna reikningsskila og upplýsinga í ársreikningum.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi. Stefnt er að því að frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga verði lagt fyrir haustþing 2008.

Utanríkismálanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt.