135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2007, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn.

558. mál
[13:30]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er ekki aðili að þessu áliti meiri hluta utanríkismálanefndar og ég hef ekki skilað inn minnihlutaáliti enda málið kannski ekki svo stórt í sniðum en ég ætla að fara yfir það hér í örfáum orðum hvers vegna ég kýs að vera ekki aðili að meirihlutanefndarálitinu. Það á sér einfaldlega skýringar í því að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vorum andvíg því að sínum tíma að Ísland tæki upp hina sameiginlegu tilskipun Evrópusambandsins um innri markað í orkumálum eða raforkumálum og höfum barist fyrir því að Ísland reyndi að semja sig undan þessu samevrópska regluverki sem á að minnstum hluta til við á Íslandi. Það er meira að segja tekið sérstaklega fram í greinargerð með málinu að þar sem tilskipunin fjalli að hluta til um viðskipti með raforku og tengingu yfir landamæri eigi hún að því leyti ekki við innlendar aðstæður nema að litlu leyti. Enda er íslenska raforkukerfið einangrað frá öðrum kerfum.

Þetta eru spekingsleg orð sem betur hefðu verið höfð í huga fyrr þegar menn tiltölulega uppburðarlítið létu sig bara að hafa það að innleiða þetta evrópska regluverk allt saman sem hefur síðan leitt til verulegra vandamála, fullyrði ég, á íslenskum orkumarkaði og er ekki búið að bíta úr nálinni með það enn. Við erum enn með í höndunum hluti sem þessu tengjast.

Tilskipunin sem hér um ræðir um aðgerðir til að tryggja öryggi í orkuöflun og fjárfestingum í flutningi og dreifingu á raforku er sprottin af vandamálum sem uppi eru í þeim efnum á hinum sameiginlega orkumarkaði meginlands Evrópu, verulegum vandamálum. Þar sem þessi markaðs- og einkavæðingarþráhyggja og tilburðir til að reyna að búa til einhvern virkan samkeppnismarkað á þessu sviði reka sig á alls konar hindranir og vandamál. Sumar vissulega kannski meira pólitísks eðlis en efnislegar en engu að síður er það þó þannig að menn væru ekki að setja nýja tilskipun eða breytingar á tilskipun og grípa til aðgerða til að tryggja öryggi í orkuöflun og tryggja að það sé fjárfest nóg í dreifikerfum og flutningi nema vegna þess að þess þarf og fyrir því eru ástæður. Ástæðurnar eru auðvitað alkunn vandamál sem hafa verið uppi í þessu kerfi þannig að hugmyndafræðin gengur ekki betur en þetta satt best að segja.

Það segir hér í greinargerð með tillögunni og yfir það fór nefndin eins og framsögumaður nefndi réttilega, að okkur fannst dálítið fátæklegar upplýsingarnar sem reiddar voru fram um það hvaða bein áhrif á íslenska löggjöf og skipulag íslensks orkumarkaðar þessi tilskipun kann að hafa í för með sér. Um það segir í greinargerðinni, svona fremur vandræðalega, með leyfi forseta:

„Tilskipunin mun fyrirsjáanlega kalla á breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum, og hugsanlega reglugerð um framkvæmd raforkulaga, nr. 1040/2005. Hins vegar er að svo stöddu ekki ljóst hversu ítarlegar þær breytingar munu endanlega verða vegna sérstöðu íslenska raforkukerfisins, samanber umfjöllun að framan.“ Og enn fremur: „Ekki er unnt að segja til um að svo stöddu hver áhrif tilskipunarinnar og efni lagabreytinga á raforkulögum muni hafa í för með sér fyrir hagsmunaaðila hér á landi.“ Hins vegar hafi ráðuneytið kynnt þetta fyrir stærstu aðilum í orkugeiranum og allt í góðu lagi með það.

Svona er þetta nú, að svo stöddu er ekki hægt að segja til um það hvaða áhrif þetta muni hafa á hagsmunaaðila í landinu. Menn verða því að taka áhættuna. Það er nánast skot út í loftið, hvaða afleiðingar þetta geti mögulega haft.

Og þannig hefur þetta því miður í allt of miklum mæli verið að menn hafi talið sig þurfa að taka við svona löguðu og hafa gert það. Koma svo hér til Alþingis og biðja um að stjórnskipulegum fyrirvara sé aflétt og gjörningurinn þar með festur í sessi en geta nánast engar upplýsingar reitt fram um það hvaða áhrif þetta muni hafa á hagsmuni okkar innan lands.

Og auðvitað er þetta ekki gott, ekki eins og það ætti að vera og burt séð frá því hvort þetta verður að gera eða hvort svigrúm er til að fá einhverjar undanþágur eða sérstaka framkvæmd að þessu leyti eins og auðvitað öll rök mæla með að við ættum að geta gert í þessu tilviki og eru reyndar fordæmi fyrir. Það er nú sem betur fer ekki þannig að menn hafi þurft að taka við hverju sem er. Við fengum t.d. algera undanþágu frá svona svipuðu regluverki hvað varðar viðskipti með gas. Einfaldlega vegna þess að það er enginn gasmarkaður til á Íslandi, engar lagnir o.s.frv. Einhverjar undanþágur ætla ég að við höfum fengið frá regluverki um járnbrautarteina og því um líkt sem svo augljóslega á ekki við á Íslandi að jafnvel þeir háu herrar í Brussel hafa séð að það var út í lofið að fara að brölta í innleiðingu þess á Íslandi.

Við höfum sem sagt ekki talið þennan leiðangur í heild sinni vera til farsældar og erum enn þeirrar skoðunar að það ætti að leita leiða til þess að semja Ísland undan þessum ákvæðum. Í öllu falli verð ég að segja að það er ankannalegt að þurfa að standa í breytingum í þessum málum hér hjá okkur akkúrat nú um þessar mundir þegar fram fara viðræður á vettvangi Evrópusambandsins um heildarendurskoðun þessara mála og svonefndur þriðji pakki raforkumála er í smíðum hjá Evrópusambandinu. Það er mál sem er ástæða til að við fylgjumst mjög grannt með. Ég hef tekið það upp á þingi ítrekað og rætt það við hæstv. iðnaðarráðherra að við látum ekki sömu mistökin endurtaka sig að sitja það svona hálfsofandi af okkur sem þar er að gerast heldur fylgjumst grannt með því og leitum færa eftir því sem þau bjóðast til að koma inn með þau sjónarmið að kannski sé nú vænlegast að Ísland sem algjörlega einangraður ótengdur raforkumarkaður úti í miðju Atlantshafi fái ósköp einfaldlega að vera í friði með skipulagsmál sín að þessu leyti.

Að sjálfsögðu munum við eftir því sem okkur hentar og kostur er áfram sjá til þess að fyrirkomulag hér standist kröfur um góða og réttmæta viðskiptahætti og samkeppni að því marki sem það er yfir höfuð raunhæft að gera ráð fyrir slíku, að halda í aðalatriðum óbreyttu landslagi í íslenskum orkumálum. En það er auðvitað eins og hver annar roknabrandari að halda að það sé raunhæft að hér stofnist einhver virkur samkeppnismarkaður fyrir raforku og væri miklu nær að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru, að þetta er opinber fákeppnismarkaður og það ætti að sníða honum regluverk í samræmi við það og hafa hann þá undir tilteknu eftirliti til þess að tryggja að verðlagning sé eðlileg og annað í þeim dúr. Við munum sem sagt ekki styðja þessa tillögu og ég geri ráð fyrir því að afstaða okkar verði sú að sitja hjá við afgreiðslu málsins.