135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2007, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn.

558. mál
[13:40]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er nú kannski ekki tilefni til mikilla ræðuhalda. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það sem hér er verið að reyna að gera er að auka afhendingaröryggi í kerfinu. Við mundum að sjálfsögðu vilja sjá fyrir því, hver sem staða okkar væri, að það væri fyrir hendi hjá okkur. Veruleikinn er auðvitað sá að löngu fyrir daga þessara tilskipana á Íslandi þá hafði okkur tekist að byggja upp tiltölulega mjög þróað kerfi og með alveg geysilega miklu afhendingaröryggi þrátt fyrir erfiða veðráttu. Það var helst að það væri úti í dreifikerfunum sem línur vildu bila í vondum veðrum. En afhendingaröryggi frá framleiðendum var alveg gríðarlega gott og þetta var tiltölulega vel skipulagt.

Það var nú ósköp einfaldlega þannig að einn aðili hafði þá skyldu að tryggja nóg framboð af rafmagni og dreifa því til viðtakendanna, dreifingaraðilanna eða einstakra kaupenda, og einfaldara gat það varla verið og það kerfi virkaði í raun og veru vel. En hver sem staða okkar yrði samkvæmt hinum evrópsku tilskipunum þá mundum við að sjálfsögðu vilja sjá til þess að afhendingaröryggi í kerfinu hjá okkur væri í hæsta gæðaflokki.

Út af fyrir sig er nokkuð ljóst að við mundum að sjálfsögðu þurfa í einhverjum mæli að uppfylla hinar almennu leikreglur hvað varðar samkeppnisskilyrði og annað því um líkt óháð því hvort við værum með undanþágur frá regluverki orkutilskipananna sem slíkra hvað varðar skipulag á markaðnum og annað í þeim dúr. Ég held því að þetta gæti allt farið vel saman og aðalatriðið í mínum huga er að við eigum að hafa sjálfstraust og metnað til þess að skoða þetta út frá okkar aðstæðum og hagsmunum og ekki gefa okkur neitt fyrir fram í þeim efnum að við þurfum endilega að byggja þar á reglum sem eru settar af öðrum aðilum og ætlaðar í allt öðrum tilgangi en þeim sem á við á okkar markaði, sem sagt að tryggja viðskiptin með orku yfir landamæri og búa til einn stóran samkeppnismarkað (Forseti hringir.) í orkumálum á meginlandi Evrópu.