135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2007, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn.

558. mál
[13:44]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sínum augum lítur hver á silfrið. Ég veit nú ekki hverju það hefði breytt í sjálfu sér hvað varðar inntak þessara mála á meginlandi Evrópu og þegar stórveldin eru að kljást um það sín í milli hvernig þau eigi að hafa þetta þótt litla Ísland hefði setið á kolli einhvers staðar við hið margfræga borð. Veruleikinn er auðvitað sá að við áttum allan kost á því að láta reyna á möguleika okkar til þess að semja okkur í öllu falli undan reglunum áður en við höfðum tekið ákvörðun um og fallist á að innleiða þær.

Ég get tekið þetta mál alveg eins og hv. þingmaður og notað það sem sterk rök fyrir því að við eigum ekki að vera í Evrópusambandinu. Sem sagt hin mikla sérstaða Íslands sem m.a. er fólgin í landfræðilegri legu okkar og hlutum eins og þeim að við erum ekki samtengdur orkumarkaður. Við erum ekki með samgöngur á landi við önnur Evrópulönd og þar fram eftir götunum.

Það er einmitt margt í þeirri sérstöðu okkar, sérstöðu okkar efnahagslífs, mikilvægi framleiðsluatvinnuvega hér, okkar litla sérhæfða hagkerfi o.s.frv. sem hníga í aðra átt og má fullt eins vel og að mínu mati miklu betur nota sem rök fyrir því að Íslandi sé betur borgið á eigin forsendum og ekki inni í Evrópusambandinu heldur en öfugt.