135. löggjafarþing — 110. fundur,  27. maí 2008.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:13]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar.

 

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veig heillar skálar.

Þel getur snúist við atorð eitt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

 

Það er eldhúsdagur á Alþingi, uppgjör um störf og stefnu ríkisstjórnar sem á eins árs afmæli. Hefur hún gengið til góðs, götuna fram eftir veg?

Ég er það mikill Íslendingur að ég ætlast til mikils af hverri ríkisstjórn og bind vonir við að alltaf gangi okkur vel í okkar fallega og gjöfula landi. Hér situr á bekkjunum í kvöld ríkisstjórn hinna brostnu vona, ríkisstjórn sem ekki hefur reynst starfi sínu vaxin. Það er almannarómur að við glímum nú við mikinn og vaxandi efnahagsvanda. Hún er daufgerð, hún er verklítil, hún talar út og suður, hún er tvíhöfða, sundruð í mörgum stórum málum. Þess vegna eiga Geir H. Haarde og ríkisstjórn hans bágt og búa við fallandi gengi og minnkandi tiltrú landsmanna.

Fyrir utan síðbúnar aðgerðir Seðlabanka Íslands til styrkingar á gjaldeyrissjóðnum hefur stjórnin í engu brugðist við vandanum. Ég er sömu skoðunar og séra Bjarni Jónsson forðum þegar hann var spurður um hvort hann væri hættur að biðja fyrir óvinsælli ríkisstjórn. Hann svaraði með sinni sterku rödd og það á við í dag: „Oft var þörf en nú er nauðsyn að biðja fyrir ríkisstjórninni.“

Ríkisstjórnin hafði að engu varnaðarorð verkalýðshreyfingarinnar, varnaðarorð atvinnulífsins, varnaðarorð okkar framsóknarmanna, að verjast verðbólgu og takast á við fjármálakreppuna. Úr því öllu var lítið gert og haldið fram af brosandi góðmenni í forsætisráðherrastól, að ekkert þyrfti að gera. Bæði almenningur og fyrirtæki voru blekkt.

Hver er nú staðan? Mesta verðbólga í 20 ár. Verðbólga mælist í maí 33% segir Morgunblaðið, ef miðað er við síðustu þrjá mánuði, 12–13% út árið. Gengið féll um 30% í marsmánuði. Lífskjör fólksins eru að skerðast.

Seðlabankinn keyrir á hæstu stýrivöxtum í heimi. Vaxtastigið og verðbólgan leika nú á ný íslensk heimili og fyrirtæki grátt. Forsætisráðherra kemur hér fram í kvöld og talar um að ríkisstjórnin sé búin að efna 80% af stefnumiðum sínum. Ég þekkti hann öðruvísi áður, hann hafði ekki við blekkingar þá. Þetta er skrum. Oft draga menn dám af sessunaut sínum og læra af honum sitthvað. Það vita það allir Íslendingar að engin ríkisstjórn er á einu ári búin að efna 80% af fyrirheitum sínum. Það er ljóst mál að ríkisstjórninni hefur ekki tekist að halda verðbólgunni í skefjum og búa íslenskri þjóð efnahagslegt öryggi.

Stjórn sem fær falleinkunn í fjármálastjórn væri leyst frá störfum í hvaða hlutafélagi sem er á næsta aðalfundi. Nú blasa við gjaldþrot í atvinnulífi, vaxandi vandamál sem hver maður finnur á eigin skinni og í eigin veski. Vaxandi atvinnuleysi er spáð á næstu missirum.

Við framsóknarmenn teljum ekkert mikilvægara en öfluga atvinnusókn, góð lífsgæði og lífsskilyrði. Þannig og aðeins þannig eflist Ísland, annars tapa allir. Ríkisstjórnin hefur lagt fram 130 mál í þinginu og ráðherrar hennar hafa farið í 130 ferðir erlendis. Það er dugnaður út af fyrir sig. Utanríkisráðherra ætlar að sætta alla erlendis og fer um loftin blá. En hér heima er gert lítið úr kosningaloforðunum sem verið er að svíkja. Jóhanna Sigurðardóttir sagðist ætla að bæta kjör umönnunarstétta í haust, ekkert bólar á því. Menntamálaráðherra sagði að það ætti að stórbæta kjör kennara, ekkert bólar á því. Bændurnir eru lítilsvirtir og ekki er hlustað á þeirra rök, vörubílstjórar segja sömu sögu. Niðurstöðu Mannréttindadómstólsins vegna kvótakerfisins er ekki svarað og gert lítið úr að þess þurfi, á sama tíma er öryggisráðið eina málið sem ríkisstjórnin er samstiga í.

Samkomulag frá 2006 við aldraða og öryrkja var svikið í vetur, tekið upp gamalt viðmið. Það vantar í hvert umslag öryrkja og aldraðra 10 þúsund krónur um hver mánaðamót eða 3,6 milljarða á ári. Ríkisstjórnin skerðir kjör þessa fólks um 3,6 milljarða af samkomulagi sem búið var að gera við það. Ég minni samfylkingarmenn á að ASÍ kann að reikna.

Góðir Íslendingar. Fjármálakreppan á sér bæði rót í alþjóðlegri þróun og offari íslensku bankanna. Frelsið — einkavæðingin gerði það að verkum að ungir menn slettu úr klaufunum eins og feitir kálfar að vori. Þeir höfðu aðgang að mjög ódýru lánsfé erlendis. Þeir dreifðu silfrinu óvarlega og súpa nú flestir seyðið af því. Þeir lánuðu til langs tíma á lágum vöxtum ódýr lán sem bankarnir tóku til skamms tíma og verða nú að taka dýr lán á háum vöxtum til að fjármagna sig. Það hriktir því í peningakerfinu.

Bankarnir ætluðu að koma íbúðalánasjóði fólksins fyrir kattarnef en það hefur ekki tekist sem betur fer. Þar höfum við framsóknarmenn staðið vörð og þeirri varðstöðu er fráleitt lokið. Enn er sótt að sjóði þessum og það eru ekki bara fulltrúar Sjálfstæðisflokks sem hér tala á skjön við Jóhönnu Sigurðardóttur, það gerði formaður Samfylkingarinnar einnig í Silfri Egils fyrir nokkrum dögum. Mikilvægi Íbúðalánasjóðs hefur ítrekað sannað sig og aldrei sem nú. Allar hugmyndir um að markaðsvæða, eða með öðrum orðum einkavæða sjóðinn, eru í reynd ógnun við möguleika íslenskrar alþýðu til að koma sér upp þaki yfir höfuðið og það er ekki síður ógnun við íbúðamarkaðinn á landsbyggðinni. Slíkar hugmyndir eru í blóra við vilja þjóðarinnar en hátt í 90% þjóðarinnar eru sömu skoðunar og við framsóknarmenn og vilja standa vörð um tilvist sjóðsins.

Ágætu Íslendingar. Í Ameríku og Evrópu ræða stjórnmálamenn offar þeirra ríku, offar peningamannanna. Frjálshyggjan óheft og grimm hefur beðið hnekki. Stefna Sjálfstæðisflokksins hefur beðið hnekki. Þessi óhefta markaðshyggja og græðgi er að renna sitt skeið. Sjálfstæðisflokkurinn er í dag haltur. Bankakerfið íslenska á að biðjast afsökunar á offari sínu, það á að vinna með stjórnvöldum og atvinnulífi að því að lágmarka skaðann. Við framsóknarmenn höfum í allan vetur talað fyrir þjóðarsátt og samvinnu á erfiðum tímum. Almenningur á ekki að líða fyrir aðgerðaleysi stjórnvalda né heldur óraunsæja græðgi og vonda spilamennsku auðmanna.

Góðir landsmenn. Ég segi hér við ykkur sem formaður Framsóknarflokksins: Það er verk að vinna. Það er í dag mikið pláss fyrir framsækinn frjálslyndan, umbótasinnaðan stjórnmálaflokk á miðju íslenskra stjórnmála. Samfylkingin sveik íslenska alþýðu, hún ætlaði að vera turninn sem stæði vörð um lífskjör almennings. Nú hvílir hún rjóð og undirleit í faðmi Sjálfstæðisflokksins, blessuð litla stúlkan.

Samfylkingin hefur forðast það svæði í pólitíkinni sem jafnaðarmenn á Norðurlöndum varða svo vel. Samfylkingin nefnir sjaldan láglaunastéttirnar, verkakonuna, sjómanninn og bóndann. Samfylkingin vill vera og er flokkur hinnar menntuðu „elítu“. Þess vegna hefur skírskotun Ingibjargar Sólrúnar verið að þrengjast.

Við framsóknarmenn munum stilla upp til sóknar á skákborði okkar öflugri sveit karla og kvenna sem mun verja hagsmuni hins almenna borgara á Íslandi.

Stærsta verkefnið nú um stundir er að ná fram efnahagslegum stöðugleika á ný og byggja upp þjóðfélag réttlætis. Til þess þarf að vinna að nýrri þjóðarsátt þar eins og við höfum margoft bent á. Það er eitt af forgangsverkefnum Framsóknarflokksins að varðveita velferðarkerfið. Velferðarkerfið í heilbrigðismálum og húsnæðismálum er í hættu í höndum þessarar ríkisstjórnar.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar — ríkisstjórn hinna sofandi afla — hefur fagnað árinu en hún getur ekki fagnað árangrinum. Þegar ég gekk inn í þinghúsið í kvöld lagði ég eyrað að berginu til að heyra hvað röddin segði um ríkisstjórnina. Ég heyrði þetta: Kötturinn sagði ekki ég. Þarna talaði kötturinn fyrir ríkisstjórnina sem er átakafælin og segir í öllum stórum málum eins og í ævintýrinu: Ekki ég, ekki ég. Þetta er ekki hægt, Íslendingar.

Ég þakka fyrir og óska öllum gleðilegs sumars.