135. löggjafarþing — 110. fundur,  27. maí 2008.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:46]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Við sem byggjum þetta land erum lánsöm, hér er gott að búa og tækifæri til sköpunar og lífsfyllingar eru nær óþrjótandi. Í samanburði við önnur samfélög erum við vel stæð. Eigi að síður ríkir félagsleg og efnahagsleg misskipting í okkar fámenna þjóðfélagi.

Í kjarasamningum um helgina glutraði ríkisstjórnin tækifæri til að standa við fögur fyrirheit og bæta sérstaklega kjör umönnunarstétta, fjölmennra kvennastétta. Þetta var ekki forgangsverkefni ríkisstjórnar sem kveðst hafa uppfyllt 80% af stefnumálum sínum. Með sama áframhaldi verður hún búin með stefnuskrána alla eftir tvo mánuði og getur þá farið frá.

Undanfarnar vikur og mánuði höfum við horfst í augu við alvarlegar afleiðingar mistaka í innlendri hagstjórn. Þau mistök sem og svifasein viðbrögð ríkisstjórnarinnar bætast ofan á alþjóðlega fjármálakreppu og síhækkandi verðlag á orku og matvælamörkuðum. Þessum erfiðleikum verðum við að mæta sameiginlega og tryggja að þar leggi þau mest af mörkum sem best eru aflögufær.

Ábyrgð okkar Íslendingar er einnig rík gagnvart umheiminum þar sem rúmlega milljarður manna lifir í sárafátækt og berst fyrir lífi sínu á hverjum degi. Víða um heim má sjá hörmulega misskiptingu og viðvarandi stríðsátök, hungur, farsóttir og mannréttindabrot. Stríð eru jafnan háð á forsendum hernaðar- og viðskiptalegra hagsmuna stórvelda og vopnaframleiðenda. Á þeirri mælistiku eru líf og limir almennra borgara lítils virði. Við Íslendingar eigum að beita okkur fyrir friðsamlegri sambúð þjóða og menningarheima og berjast fyrir mannréttindum, kvenfrelsi, lýðræði, réttlæti og jöfnuði. Það er því þyngra en tárum taki að íslensk stjórnvöld hafi spunnið okkur þann vef hernaðar og vígvæðingar sem raun ber vitni. Við höfum til að mynda öll verið gerð samábyrg fyrir falli þúsunda óbreyttra borgara. Í Írak. Í Afganistan.

Það er hægri pólitík að lækka skatta á þeim sem mest bera út býtum en eyða á sama tíma þeim mun meira af sameiginlegum tekjum til hermála. Þeirri pólitík vex nú illu heilli fiskur um hrygg hér á landi. Um nýtt bákn hermála, Varnarmálastofnun, flæða hundruð eða jafnvel þúsundir milljóna rétt eins og það sé brýnasta forvarnaverkefni samfélagsins. Staðreyndin er þvert á móti sú að okkur er mest vá búin af margs konar hversdagslegu böli eins og umferðarslysum, fíkniefnum, heimilisofbeldi, misnotkun og vanrækslu svo fátt eitt sé nefnt fyrir svo utan umhverfisógn af ýmsu tagi. Það er von að spurt sé: Hvert eiga milljarðarnir að fara?

Raunalegast er að sjá hervæðinguna eiga sér stað undir merkjum jafnaðarstefnunnar. Eða hvenær var kjósendum kynnt þessi nýstárlega jafnaðarstefna? Við getum sem herlaus þjóð lagt mikið af mörkum ef við gætum hlutleysis, ef við bindum ekki trúss okkar við bandalög stórþjóða þar sem viðskiptalegir og hernaðarlegir hagsmunir ráða för og ef við höfnum aukinni hernaðarhugsun heima fyrir. Þá getum við verið raunsönn, öðruvísi fyrirmynd sem eftir er tekið.

Margvísleg verkefni bíða úrlausnar á heimsvísu og þar er mikilvægt að Ísland sé uppbyggileg rödd til góðs. Það er sameiginlegt verkefni þjóða heims að útrýma fátækt og endurmeta skiptingu veraldlegra verðmæta milli einstaklinga og þjóða og að tryggja mannsæmandi lífsskilyrði hvarvetna í heiminum án þess að gengið sé á auðlindir og umhverfi. Stríðsrekstur er aldrei leiðin að því marki nema síður sé.

Auk efnahagslegs og félagslegs ójöfnuðar milli ríkra þjóða og fátækra ógna loftslagsbreytingar af mannavöldum og hrun vistkerfa sjálfbærri framtíð okkar og komandi kynslóða. Einnig á þeim vettvangi eigum Íslendingar að leggja þungt lóð á vogarskál heillavænlegrar þróunar. Þótt við stöndum vel að vígi hvað varðar nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa er losun gróðurhúsalofttegunda á hvern íbúa hér á landi með því mesta sem gerist og hefur aukist hraðar en í nokkru öðru landi Evrópu. Þeirri óþægilegu staðreynd getum við ekki velt á undan okkur eða varpað á herðar öðrum. Á henni þarf að taka undanbragðalaust. Slagorðið „Hugsum á heimsvísu, framkvæmum heima“ minnir okkur á að við getum á engan hátt skorist úr leik. Því veldur það óneitanlega vonbrigðum að ríkisstjórnin hafi ekki tekið af meiri festu og þreki á umhverfismálum og náttúruvernd en raun ber vitni. Stóriðjuframkvæmdir eru á blússandi siglingu. Þjórsá jafnt sem aðrar náttúruperlur eru enn í stórhættu þvert á gefin loforð.

Góðir tilheyrendur. Þrátt fyrir fámennið og kannski einmitt vegna þess hefur okkur tekist að byggja upp kraftmikið og vel menntað samfélag með sterkar menningarlegar rætur. Nú þegar á móti blæs þurfum við að standa saman og leggjast á eitt til að treysta undirstöður velferðar í landinu og efnahagslegan stöðugleika. Það er bara einn bátur, við erum öll á honum og verðum að róa í sömu átt. Vaxandi misskipting undanfarinna ára torveldar þó róðurinn nú. Það er okkur því úrslitaatriði þegar að herðir að stórefla grunnstoðir samfélagsins á öllum sviðum, hverfa frá stefnu einkavæðingar á auðlindum og almannaþjónustu og tryggja jöfnuð og jafnrétti allra íbúa um allt land. Með því að vera samfélag sem í einu og öllu leitast við að byggja á gróskufullri menningu, réttlæti, sanngirni og sjálfbærri þróun leggjum við um leið nokkuð af mörkum í þágu heimsbyggðarinnar allrar. Það er framtíðarsýn sem við vinstri græn vinnum að. — Góðar stundir.