135. löggjafarþing — 110. fundur,  27. maí 2008.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:05]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Góðir landsmenn. Nú er liðið eitt ár frá því að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við stjórnartaumum í landinu. Það markaði tímamót að því leyti að þá tóku höndum saman þeir flokkar sem stærstir hafa verið í landinu á undanförnum árum. Það er með stolti sem ég stend hér og lít yfir þau verkefni sem þessi stjórnarmeirihluti hefur staðið að og þeirra skulum við líta til, verkefnanna og þess sem sameinar fremur en þess sem sundrar. Þó að þessir tveir flokkar séu sammála um ákveðna verkefnaskrá eru þeir ólíkir og hafa mismunandi skoðanir um margt.

Ég tel að þessi stjórn hafi verið eini raunhæfi kosturinn miðað við þá stöðu sem uppi var og sé litið til þessa fyrsta árs hafi verið afar heppilegt að einmitt þessir tveir flokkar voru við stjórnvölinn. Í þeirri efnahagslægð sem við höfum upplifað sýndu stjórnarflokkarnir styrk sinn. Við höfum ekki farið á taugum eða sýnt kæruleysi við efnahagsstjórn heldur með hægð og af öryggi stýrt í gegnum mesta brimskaflinn, og á grundvelli mótaðrar verkefnaskrár verður haldið áfram út kjörtímabilið.

Um leið og litið er yfir verkefni þessa fyrsta árs skal það áréttað að hér er einungis hið fyrsta af fjórum að baki. Enn bíða mörg mál úrlausnar í anda stjórnarsáttmálans og ekki raunsætt að ætlast til að öll mál séu í höfn eftir þetta fyrsta ár.

Ágætu landsmenn. Þegar litið er yfir sviðið í kvenfrelsis- og jafnréttismálum er hægt að bera höfuðið hátt. Loksins, loksins er á Íslandi tekinn við stjórnartaumunum meiri hluti sem byggir á kvenfrelsi, einni af þeim stoðum sem Samfylkingin hvílir á. Nú hefur verið samþykkt nýtt frumvarp til jafnréttislaga. Ég fullyrði að það er eitt mesta framfaraskref í lagasetningu á sviði jafnréttismála í seinni tíð. Þar er kveðið á um að Jafnréttisstofa fái ríkari heimildir til að hafa framkvæmd með eftirfylgni laganna því að ótrúlegt en satt, ýmsir hafa komist upp með það árum saman að hunsa jafnréttislög og það hefur viðgengist án þess að Alþingi brygðist við. Síðan má velta því fyrir sér hvort slíkt hefði verið látið óáreitt ef um væri að ræða fjármálamarkaðinn, samkeppnismálin eða önnur slík svið.

Nú hefur Jafnréttisstofa fengið álíka heimild og t.d. Samkeppniseftirlit og Fjármálaeftirlit til að fylgjast með því að lögunum sé fylgt. Kærunefnd jafnréttismála hefur fengið þann stall í lögunum að nú eru úrskurðir hennar bindandi og er það hrein grundvallarbreyting.

Eitt af mikilvægustu verkefnum ríkisstjórnarinnar er einmitt að vinna á kynbundnum launamun og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stendur að minnka eigi óútskýrðan kynbundinn launamun um helming á kjörtímabilinu. Strax síðasta haust voru því settar á laggirnar tvær nefndir sem vinna eiga tillögur um að taka hressilega á launamun kynjanna. Ég á sjálf sæti í annarri nefndinni og hefur hún það meginverkefni að setja fram áætlun um hvernig minnka megi óútskýrðan launamun kynjanna á opinberum vinnumarkaði og auk þess að gera tillögur um það hvernig endurmeta megi kjör kvenna, sérstaklega hjá hinu opinbera, einkum meðal þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta.

Margir munu e.t.v. taka undir orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur hér á undan og tala um að hér sé reitt hátt til höggs. Enn aðrir munu spyrja hví þetta hafi ekki verið gert í nýgerðum samningum. Innbyggt óréttlæti verður ekki lagfært í einni svipan, til þess þarf lengri samningstíma en samið var um á dögunum og ígrundað samkomulag allra aðila um yfirlýst markmið. Verið er að vinna áætlun í þessum efnum og tillögur nefndanna verða kynntar á jafnréttisþingi í október nk. Þær verða síðan grunnur og innlegg í kjarasamningagerð þegar samningar losna í mars 2009.

Ég tala af reynslu þegar ég segi að ef pólitískur vilji er til að taka á þessum málum er það hægt. Ef það var hægt að minnka bilið með þessum hætti hjá Reykjavíkurborg á sínum tíma er það hægt hjá ríkinu líka.

Góðir landsmenn. Við Íslendingar erum vön dyntóttri veðráttu og ef það er eitthvað sem við getum treyst er það það að blíðviðri er sjaldan varanlegt. Á hinn bóginn vitum við líka fyrir víst að öll él birtir upp um síðir. Við njótum sólar meðan hún skín um leið og við búum okkur af fyrirhyggju undir komandi hvassviðri. Undanfarin missiri höfum við upplifað langvarandi hæðir í hagkerfinu allt þar til sú efnahagslægð sem við glímum við kom inn yfir landið. Á sama hátt og við tökumst jafnan á við óblíð náttúruöflin með samstöðu, samhjálp og rausnarskap hvert í annars garð ríður nú á að mæta efnahagslægðinni með sama hætti og tryggja öllum skjól fyrir henni sem þess þurfa, treysta stoðir velferðarkerfisins og huga hvert að öðru. Beri okkur gæfa til þess blasa við okkur spennandi tímar með nýjum áskorunum, nýjum tækifærum og bjartari framtíð. — Góðar stundir.