135. löggjafarþing — 110. fundur,  27. maí 2008.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:11]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Í október sl. kom úrskurður mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna þar sem kveðið var á um það að Íslendingar brytu gegn mannréttindum, brytu gegn 26. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Hver einasta ríkisstjórn sem bæri virðingu fyrir sjálfri sér og mannréttindum borgara sinna í lýðræðisþjóðfélagi hefði að sjálfsögðu brugðist við með fyrsta mögulega hætti og mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gaf ríkisstjórninni 180 daga til að bregðast við. Nú eru eingöngu 16 dagar eftir af þeim 180 daga fresti til þess að bregðast við og taka upp og virða mannréttindi í landinu.

Gjafakvótakerfið er óréttmætt, það brýtur gegn jafnréttisákvæðum alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, það er niðurstaða úrskurðarnefndar mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Við, nokkrir þingmenn, höfum krafist þess og lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um að Alþingi álykti að farið verði að niðurstöðu mannréttindanefndarinnar. Hún hefur fengist rædd og þingmenn allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins tóku undir þessi sjónarmið. Samt sem áður bólar ekki á afgreiðslu og engum aðgerðum af hálfu sjávarútvegsráðherra eða ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórn sem ætlar sér að sækjast eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á það ekki skilið meðan hún neitar að virða mannréttindi borgara sinna.

Á ársafmæli ríkisstjórnarinnar síðasta föstudag sagði forsætisráðherra að um 80% efnisatriða stjórnarsáttmálans væru í höfn. Hv. þm. Árni þór Sigurðsson vék að því hér áðan í umræðunni að þá mundi ríkisstjórnina þrjóta örendið einhvern tíma eftir tvo mánuði. Mér reiknaðist til að það yrði í byrjun ágúst og þá væri eðlilegt að menn annaðhvort endurnýjuðu stjórnarsáttmálann eða við tæki ný ríkisstjórn.

Er það nú svo að ríkisstjórnin hafi farið þannig að að hún hafi framkvæmt svona mikið af stjórnarsáttmálanum eða því sem þar stendur? Ég vil benda á að síðasta sumar fóru stjórnarþingmenn og ráðherrar mikinn um það að við trónuðum á toppnum varðandi velmegun og það hvernig lífskjör væru hér betri en nokkurs staðar annars staðar í veröldinni. Ég benti á það við þær umræður að við byggjum við skuldsetta velmegun og að þeir sem þökkuðu sér sólskinið, eins og segir í gömlu kínversku máltæki, yrðu að sætta sig við það að þeim yrði kennt um rigninguna.

Hvernig er umhorfs í íslenskum efnahagsmálum í dag? Verðbólga síðustu þrjá mánuði mælist 28%. Gengi krónunnar hefur fallið um 25% eða fjórðung frá áramótum og vísitala neysluverðs til verðtryggingar hækkar og hækkar. Ekki sjást nein merki um að dregið sé úr umsvifum hins opinbera sem nálgast nú eða er að fara yfir helming af vergri þjóðarframleiðslu.

Ríkissjóður lagði í dag fyrir Alþingi að heimilað yrði að ríkissjóður fengi að taka allt að 500 milljarða lán til að endurlána Seðlabanka Íslands. Þetta er m.a. herkostnaður okkar af gjaldmiðlinum og óábyrgri efnahagsstjórn undanfarinna ára.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu í þágu heimila og atvinnulífs. Markmið hagstjórnar er að tryggja lága verðbólgu og lágt vaxtastig, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jafnan og öflugan hagvöxt og áframhaldandi trausta stöðu ríkissjóðs.“

Með þetta í huga er eðlilegt að hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir komi hér upp og segist vera stolt af því að vera í þeirri stöðu að vera fylgismaður ríkisstjórnarinnar. Því hvað hefur nú gengið eftir af þessu? Eru það 80% af þessum fyrirheitum sem hafa verið efnd? Ríkir hér stöðugleiki í efnahagslífinu? Ó, nei. Eru markmið hagstjórnarinnar að nást, að tryggja lága verðbólgu? Nei, verðbólgan mælist 28% síðustu þrjá mánuði eins og ég vék að áðan. Er vaxtastig lágt? Nei, við búum við Evrópumet í háum vöxtum og óhagkvæmustu lánakjör fyrir almenning í landinu. Er jafnvægi í utanríkisviðskiptum? Já, það hefur kannski aðeins þokast í þá átt. Spurningin er síðan: Búum við við jafnan og öflugan hagvöxt? Svarið við þessari spurningu er líka nei. Nei, það má búast við því að hagvöxtur á Íslandi í ár verði neikvæður, hvorki jafn og öflugur né jákvæður.

Þetta er árangurinn sem við horfum á, þetta er Ísland í dag og þetta er viðfangsefni sem verður að takast á við og við komumst ekki hjá að gera.

Í umræðunni hér áðan sagði hæstv. forsætisráðherra að erfiðleikarnir muni víkja fyrir betri tíð og ég er honum hjartanlega sammála, það mun gerast, það er vissulega rétt. En það er vegna þess að þjóðin býr yfir dug, þolgæði og áræðni til að takast á við vandamálin. Önnur og dugmikil ríkisstjórn mundi auðvelda þjóðinni þá vegferð. — Góðar stundir.