135. löggjafarþing — 110. fundur,  27. maí 2008.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:25]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ágætu Íslendingar. Úlfur, úlfur, kreppa, kreppa, hagstjórnarmistök, blekkingar og hrun. Þannig eru upphrópanir stjórnarandstöðu dagsins og ef maður hrópar nógu mikið, nógu hátt og nógu oft hætta allir að hlusta. En auðvitað er full ástæða til að leggja við hlustir. Það gefur á bátinn, á okkur herjar hækkandi olíuverð, rokkandi gengi og höktandi hlutabréfamarkaður og vissulega ríkir ákveðin óvissa um hvað nánasta framtíð ber í skauti sér. En allt tal um að kreppa ríki á Íslandi á þessu fallega vori er mikil gengisfelling þess orðs.

Á hinum raunverulegu kreppuárum átti fólk vart til hnífs og skeiðar, það svalt heilu hungri, börnin fengu ekki klæðin ný, menn gengu um atvinnulausir og fóru svangir að sofa. Núna hneigjast menn til að kenna það við kreppuástand að þurfa að draga úr útgjöldum sínum, skera aðeins við sig munaðinn. Ung stúlka sem ég hitti austur á fjörðum um daginn sagði við mig að það væri að koma kreppa og ég spurði hana hvers vegna hún héldi það. Hún svaraði að pabbi og mamma væru hætt við að kaupa nýjan flatskjá í eldhúsið.

Við stöndum á ákveðnum krossgötum. Verðbólga er komin á kreik og vísbendingar eru um samdrátt í íslensku efnahagslífi en sem betur fer eru Íslendingar vel í stakk búnir til að takast á við slíkan veruleika. Lífskjör þjóðarinnar eru með þeim bestu í veröldinni en öllum má ljóst vera að við núverandi aðstæður hægir á vexti og samdráttur er óhjákvæmilegur á einhverjum sviðum. Þá er meginverkefnið að laga lífsmátann að þeim veruleika og forðast útgjöld sem beðið geta án tjóns, hætta við kaupin á flatskjánum í eldhúsið og sneiða hjá kaupum á vöru og þjónustu sem verðlögð er með þeim hætti að treyst er á að verðskyn neytenda sé ekkert, horfið út í veður og vind í góðæri undangenginna ára.

Viðbrögðin við þeim aðstæðum sem nú ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar er vandasamt verkefni fyrir landsmenn alla hvort sem þeir reka heimili, fyrirtæki eða ríkið sjálft. Með festu, hyggindum og framsýni verður best tekist á við þann vanda sem að steðjar og verja það sem áunnist hefur.

Allt er breytingum undirorpið. Sá sem gæti séð þróun íslensks samfélags síðustu áratuga í einni sjónhendingu fengi líklega svima, það væri eins og að horfa inn í þvottavindu á fullri ferð. Gríðarlegar breytingar hafa orðið á öllum sviðum og við höfum þurft að sýna mikla aðlögunarhæfni. Í sjávarútvegi hefur til að mynda orðið mikill samdráttur í afla sem atvinnugreinin hefur mætt með því að ná meiri verðmætum út úr sjávarfanginu, færri hendur vinna verkin en áður og tæknivæðing einkennir veiðar og vinnslu sem aldrei fyrr. Landbúnaður hefur einnig mætt byltingarkenndum breytingum og aðstæðum sem engan gat órað fyrir að mundu knýja dyra í blómlegum sveitum landsins. Þar er framtíðin fólgin í því að laga sig að breyttum tímum, takast á við hið óhjákvæmilega og fara með sigur af hólmi.

Nú blása kaldir vindar um nýja atvinnugrein sem fjármálastarfsemin er, alveg eins og þeir hafa áður gert í landbúnaði og sjávarútvegi. Við höfum áður tekist á við gæftaleysi, aflabrest, kal í túnum og frostaveturinn mikla. Þótt dagurinn í dag sé e.t.v. ekki sá bjartasti sem við höfum séð þá er alltaf bjart fram undan. Það minnir mig á sögu af Aðalsteini heitnum Jónssyni, athafnamanni á Eskifirði, sem alltaf hafði fulla trú á sjálfum sér, bæjarbúum og framtíð bæjarfélagsins. Eitt sinn þegar rekstur sjávarútvegsfyrirtækis hans stóð sem tæpast og allir töldu einsýnt að það færi á hausinn fyrir vikulok var Aðalsteinn sjálfur spurður að því hvernig honum litist á blikuna. Þá svaraði hann ósköp einfaldlega: Það er bjart fram undan. Sem auðvitað var raunin vegna þess að hann trúði því og vann sitt verk með það að leiðarljósi. Þannig er þetta bara.

Það eru aldrei öll sund lokuð og að sjálfsögðu mun birta aftur fyrr en varir. „Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, sæta, langa sumardaga.“ — Ég þakka þeim sem hlýddu.