135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[10:12]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er um að ræða lagasetningu sem ég tel að sé ein sú mikilvægasta sem rekið hefur á fjörur Alþingis á síðustu árum og ég er ákaflega þakklátur fyrir þá breiðu samstöðu sem hér hefur náðst um ákveðin grundvallaratriði. Það virðist sem þingheimur allur standi einhuga að baki þeirri stefnu sem í frumvarpinu birtist og varðar það að tryggja að orkuauðlindir sem eru nú þegar í samfélagslegri eigu verði það áfram. Ég tel að þetta skipti ákaflega miklu máli. Einnig virðist mér sem giska góð samstaða ríki líka um það að sérleyfisfyrirtæki þau sem sjá almennum borgurum fyrir ljósi og hita verði jafnframt, að þessum lögum samþykktum, ævinlega að meiri hluta í eigu samfélagsins, þ.e. ríkis og sveitarfélaga. Það skiptir miklu máli. Sömuleiðis er með þessu frumvarpi verið að greiða orkufyrirtækjum okkar leið til betri samkeppnisstöðu bæði heima en ekki síst erlendis. Ég þakka þingheimi fyrir þann stuðning sem hefur komið fram við grundvallaratriðin í þessu frumvarpi.