135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[10:23]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil gera svofellda grein fyrir atkvæði mínu sem er grænt að þessu sinni. Ég geri fyrirvara við orðanotkun í greininni en ég er samþykk prinsippinu. Ég er sammála því að leitast eigi við að halda auðlindunum í eigu almannavaldsins, í eigu okkar allra, í eigu þjóðarinnar. Ég geri hins vegar athugasemd við það að orðið eignarréttur skuli koma fyrir í greininni því ég minni á deiluna, sem er óleyst enn, sem stendur um eignarrétt á vatni. Samkvæmt þeim vatnalögum sem eru í gildi í dag er ekki hægt að skilgreina eignarrétt á vatni. Samkvæmt hins vegar því frumvarpi sem búið er að reyna í tvö ár að leiða hingað í lög er talað um eignarrétt. Í þessu máli er því hnútur sem enn er óleystur. Það er með fyrirvara um að sá hnútur leysist sem ég segi já, hæstv. forseti.