135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[10:26]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ef ég hef tekið rétt eftir erum við að greiða atkvæði um að lækka þann hlut sem skal að lágmarki vera í opinberri eigu í flutningsfyrirtækinu Landsneti. Það er mér með öllu óskiljanlegt að menn skuli vilja breyta frumvarpinu að þessu leyti í öfuga átt þegar það eina rétta væri náttúrlega að ganga frá því að Landsnet væri að fullu í opinberri eigu um aldur og ævi, sem er eina vitræna skipulagið í þessum efnum.

Það er með þetta frumvarp eins og suma aðra hluti að það á eftir að reyna á það hvernig það mun gefast í framtíðinni hvort það verða túlkanir og vilji hv. þm. Péturs Blöndals um að þetta þjóni einkavæðingartrúnni eða hvort það verði sá meinti tilgangur að slá skjaldborg um auðlindir í almannaeigu sem verður ofan á. Ég vona að frumvarpið reynist ekki flagð undir fögru skinni þessa tilgangs að verja auðlindirnar í opinberri eigu. En ég mæli með því að hæstv. iðnaðarráðherra verði aðeins hógværari þegar hann hælist um af þessu afreki sínu, að hafa komið þessu máli hingað inn og sérstaklega í ljósi þess að í stefnir að Alþingi breyti því til hins verra, meiri hlutinn með stuðningi ráðherrans.