135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[10:49]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að leggjast gegn því að þetta mál fari til 3. umr. og ég geri ráð fyrir að það fari til nefndar milli umræðna í ljósi þeirra miklu breytinga sem á því voru gerðar. En því miður voru þær breytingar allar í eina átt að lækkaðar voru þær girðingar og veiktar þær varnir sem eiga að heita í þessu frumvarpi, ef að lögum verður, utan um sameign á orkuauðlindunum.

Málið er því ákaflega tvíbent og framtíðin mun ráðast fyrst og fremst af pólitískum viðhorfum og stefnu þeirra sem fara með völdin og framkvæmd þessara laga. Hvort það verður túlkun Samfylkingarinnar að hér sé nokkur vörn í hvað varðar hið sameiginlega eignarhald eða hvort það verða túlkanir hv. þm. Péturs Blöndals og skoðanasystkina hans um að þetta opni meira og minna fyrir einkavæðingu á þessu öllu saman. Eða efast einhver um það hvernig orkumarkaðurinn á Íslandi muni líta út eftir nokkur ár þó að þessi lög verði samþykkt ef hv. þm. Pétur Blöndal fær alræðisvald í landinu?