135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[11:21]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum, nr. 44/2005, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingunni Þorsteinsdóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Guðmund Skúla Hartvigsson og Hólmfríði Kristjánsdóttur frá Deloitte, Sigurð Örn Guðleifsson frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Hafdísi Ólafsdóttur og Pál Gunnar Pálsson frá Samkeppniseftirlitinu, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Gísla Tryggvason, talsmann neytenda, Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði og Áslaugu Árnadóttur frá viðskiptaráðuneyti.

Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á ákvæðum um samruna í samkeppnislögum. Helstu breytingar sem í frumvarpinu felast eru í fyrsta lagi að gert er ráð fyrir að samruni komi ekki til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann. Verði frumvarpið að lögum getur Samkeppniseftirlitið því ógilt samruna áður en hann kemst til framkvæmda en ekki eftir að hann hefur átt sér stað líkt og kveðið er á um í 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. gildandi laga. Í öðru lagi er lögð til hækkun á þeim veltumörkum sem miðað skal við þegar metið er hvort samruni sé tilkynningarskyldur auk þess sem lagt er til það nýmæli að fjárhæðarmörk miðist við veltu fyrirtækja á Íslandi. Í þriðja lagi er gerð tillaga um útvíkkun á heimildum Samkeppniseftirlitsins til að ógilda samruna eða setja skilyrði fyrir honum. Stofnunin fær samkvæmt frumvarpinu aukið svigrúm til mats á samkeppnislegum áhrifum samruna. Í fjórða lagi er lagt til að ákvæðum um fresti til að taka ákvarðanir í samrunamálum verði breytt. Í fimmta lagi er gert ráð fyrir því að heimilt verði í ákveðnum tilvikum að setja fram styttri tilkynningar um samruna. Í sjötta lagi er mælt fyrir um heimild til handa Samkeppniseftirlitinu til að taka mál fyrir að nýju, hafi áfrýjunarnefnd eða dómstóll ógilt ákvörðun eftirlitsins sökum formgalla. Í sjöunda lagi er lagt til að skilgreining á hugtökunum „samruni“ og „yfirráð“ verði færð til samræmis við evrópskan samkeppnisrétt.

Ákvæði frumvarpsins miða að því að færa reglur íslensks samkeppnisréttar nær reglum EES- og EB-réttar og tekur frumvarpið jafnframt mið af reynslu Samkeppniseftirlitsins við meðferð samrunamála á síðustu missirum.

Nefndin leggur til að nokkrar breytingar verði gerðar á frumvarpinu.

Lagðar eru til ýmsar breytingar á 3. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að við a-lið greinarinnar bætist ný málsgrein þess efnis að unnt sé að tilteknum skilyrðum uppfylltum að fá undanþágu frá því að samruni komi ekki til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann. Skilyrði fyrir slíkri undanþágu eru þau að sýnt hafi verið fram á að tafir á framkvæmd samrunans geti skaðað viðkomandi fyrirtæki eða viðskiptaaðila þess og að samkeppni sé stefnt í hættu. Gert er ráð fyrir að Samkeppniseftirlitið hafi heimild til að binda undanþáguna skilyrðum. Í öðru lagi er lagt til að b-lið 3. gr. verði breytt á þann veg að Samkeppniseftirlitinu verði unnt að krefja aðila samruna, sem ekki uppfyllir skilyrði a- og b-liðar 1. mgr. 17. gr. a um veltumörk, um tilkynningu um samrunann þegar verulegar líkur eru á því að samruninn geti dregið umtalsvert úr virkri samkeppni. Þetta á þó aðeins við ef sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er meiri en einn milljarður króna á ári. Í breytingartillögunni er einnig gert ráð fyrir að aðilar samruna sem ekki uppfylla veltumörk 1. mgr. 17. gr. a geti greint Samkeppniseftirlitinu skriflega frá samrunanum og hafi stofnunin þá 15 virka daga til að taka ákvörðun um það hvort óska eigi eftir tilkynningu um samrunann.

Þá er í þriðja lagi lagt til að gerðar verði breytingar á 1. málslið c-liðar 3. gr. þar sem kveðið er á um heimildir Samkeppniseftirlitsins til að ógilda samruna. Í frumvarpinu er lagt til að Samkeppniseftirlitinu verði heimilt að ógilda samruna sem hindrar virka samkeppni, einkum þegar markaðsráðandi staða eins eða fleiri fyrirtækja myndast eða styrkist. Hefur breytingin þótt matskennd og er því lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt þannig að skýrt verði kveðið á um það í hverju hið aukna svigrúm stofnunarinnar til efnislegs mats felist. Þannig er lagt til að Samkeppniseftirlitið geti ógilt samruna ef stofnunin telur að hann hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða eins eða fleiri fyrirtækja verði til eða styrkist eða verði til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Að öðru leyti vísast um svigrúm til efnislegs mats til athugasemda um c-lið 3. gr. frumvarpsins.

Auk þessa er lagt til að við c-lið bætist nýr málsliður þess efnis að við mat á lögmæti samruna skuli tekið tillit til tækni- og efnahagsframfara að því tilskildu að þær séu neytendum til hagsbóta og hindri ekki samkeppni. Í þessu sambandi má vísa til 2. gr. samrunareglugerðar EB nr. 139/2004. Ákvæðið heimilar framkvæmdastjórninni að hafa hliðsjón af hagræðinu sem kann að stafa af samruna. Þótt íslensk samkeppnisyfirvöld hafi að gildandi rétti talið sig hafa heimild til að beita framangreindum sjónarmiðum þykir rétt í samræmi við meginstefnu þessa frumvarps að ákvæðið verði fært til skýrara samræmis við Evrópurétt. Í því felst m.a. að tillit til skilvirknis- eða hagræðingarsjónarmiða koma aðeins til álita þar sem tryggt er að hreinn ávinningur af samruna skili sér til neytenda. Sönnunarbyrði hvílir á samrunaaðilum. Samkvæmt þessu eru skilyrðin fyrir því að tekið verði tillit til hagræðingar við mat á áhrifum samruna í samkeppnismálum hér á landi í megindráttum þau í fyrsta lagi að verulegar líkur séu á að samruninn skili skjótt umtalsvert aukinni hagkvæmni í rekstri hins sameinaða fyrirtækis. Í öðru lagi að hagræðingaráhrifin séu beintengd samrunanum og ekki hægt að framkalla þau með öðrum hætti. Í þriðja lagi að aukin hagræðing skili sér til neytenda í formi verðlækkunar sem vegi þyngra en hugsanleg verðhækkun vegna skertrar samkeppni. Samrunaaðilar verða að geta fært sönnur á þau þrjú atriði sem að framan eru rakin. Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á d-lið 3. gr. frumvarpsins. Breytingar í a-lið leiðir af breytingu sem lögð er til á a-lið 3. gr. en í b-lið er lagt til að við útreikning á fresti samkvæmt lokamálslið 1. mgr. verði miðað við virka daga, eins og gert er annars staðar í frumvarpinu.

Jafnframt leggur nefndin til að við frumvarpið bætist ákvæði um breytingar á nokkrum ákvæðum laganna þar sem vísað er til 17. gr. auk breytinga á viðurlagakafla laganna en þar er einnig um að ræða breytingu á nokkrum tilvísunum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir þetta álit rita hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Birgir Ármannsson, Árni Páll Árnason, Birkir Jón Jónsson, Jón Gunnarsson, Björk Guðjónsdóttir og Jón Bjarnason, en hann er með fyrirvara fyrir þetta álit.

Höskuldur Þórhallsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Jón Magnússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.