135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[11:30]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum sem liggur fyrir til 2. umr. og formaður nefndarinnar, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur gert grein fyrir því. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns er ég á nefndarálitinu með fyrirvara.

Eins og hv. þingmaður, formaður viðskiptanefndar, greindi frá lúta breytingar nefndarinnar fyrst og fremst að samruna fyrirtækja og inngripa Samkeppniseftirlitsins, annars vegar tilkynningarskyldu, upplýsingaskyldu til Samkeppniseftirlitsins og hins vegar inngripa stofnunarinnar gagnvart því sem þar væri að gerast.

Verið er að útvíkka þær heimildir og færa auknar heimildir til Samkeppniseftirlitsins til að ógilda samruna eða setja skilyrði fyrir honum. Stofnunin fær samkvæmt frumvarpinu aukið svigrúm til mats á samkeppnislegum áhrifum samruna. Ég staldra mjög mikið við slíka orðnotkun og þær skilgreiningar. Margir af þeim þáttum sem teknir eru til eru kannski ekki eingöngu samkeppnisrekstur heldur er það líka þjónustustarfsemi. Hvergi er talað um í þessum lögum að gæta eigi að einhverjum uppfylltum þjónustuskyldum heldur fyrst og fremst að ytri skilyrðum samkeppnisþátta sem eru eins og rauður þráður eða heilög trú í gegnum þetta mál.

Fyrirvari minn lýtur einmitt að þeirri hugmyndafræðilegu nálgun að æ fleiri þættir skuli settir á þennan samkeppnismælikvarða og lög og reglur á ýmsum sviðum hertar hvað það varðar en hvergi er minnst á þjónustuskyldur. Tökum olíufélögin sem dæmi. Við erum með þrjú eða fjögur olíufélög. Samkeppnin snýst fyrst og fremst um olíusöluna á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þar eru settar upp þjónustustöðvar nánast hlið við hlið en í stórum landshlutum er þjónusta varðandi olíusölu og olíudreifingu aftur á móti af skornum skammti og ekki nema eitt fyrirtæki og varla það á stórum svæðum, sem geta þá líka skammtað sér þjónustustíl. Í þessum efnum sýnist mér landinu vera skipt upp, annars vegar þar sem menn halda að svokallaðar samkeppnisreglur geti gilt til að halda uppi gæðum og þjónustu og hins vegar er á stórum hluta landsins litið svo á að sú þjónusta og gæði hennar skipti engu máli. Ég get alls ekki fallist á slík botnlaus samkeppnissjónarmið sem eru farin að ráða eiginlega alls staðar í samfélaginu og stöðugt er keyrt á. Ég hefði viljað sjá að þarna komi ætíð inn orð eins og þjónusta eða þjónustuskyldur.

Mörg af þessum lögum sniðganga eða taka ekkert tillit til þess hvernig dyggð og búseta í landinu er, gríðarlegar vegalengdir, landið þéttbýlt hér á þessu svæði en dreifbýlt úti á landi. Ef menn eru stöðugt að velta fyrir sér samkeppni og samkeppnisreglum, sem ég ætla ekki að gera lítið úr, ættu menn líka að setja þjónustukvöðina, en það er ekki. Svona er þetta á æ fleiri sviðum.

Ég minntist á olíuna. Ég held að mörg okkar upplifi það að ekki sé svo mikil samkeppni þegar upp er staðið á milli olíufélaganna á samkeppnissvæðum landsins. Þar komi allir fram nánast sem einn aðili. (Gripið fram í: Jú, jú, það eru alltaf ein og tvær krónur til eða frá.) Það eru ein eða tvær krónur til eða frá, þá venjulega hjá olíufyrirtæki sem takmarkar þjónustu sína við ákveðna landshluta. Við vorum að berjast fyrir því í haust, það hefur ekki komið fram aftur, en þá lagði ríkisstjórnin til í frumvarpi til fjárlaga að felldur yrði niður styrkur eða stuðningur við olíudreifingu á landsbyggðinni vegna þess að hann væri samkeppnishamlandi á þeim forsendum. Það væri orðið samkeppnishamlandi að veittur væri flutningsstyrkur til að flytja olíu og bensín út á Langanes, Vestfirði eða aðra staði sem liggja fjarri megininnflutningshöfnunum. Það var því ekki verið að hugsa um þar að setja á þjónustuskylduna. Fyrirvari minn lýtur að þessu.

Ég hélt að í nógu væri að snúast hjá Samkeppniseftirlitinu. Samt sá sú stofnun ástæðu til að senda Bændasamtökunum bréf að afloknu búnaðarþingi. Ætli búnaðarþing sé ekki meira en aldargamall samráðsvettvangur og vettvangur bænda í landinu? Miklu eldra en Samkeppniseftirlitið og miklu virðulegra að mínu mati. Samt sá Samkeppniseftirlitið ástæðu til að senda Bændasamtökunum bréf og óska eftir afritum af öllum fundargerðum, tölvupóstum og öðrum samskiptum sem farið hefðu manna á milli á búnaðarþingi. Sá grunur læddist að Samkeppniseftirlitinu að bændur hefðu verið að ræða saman og hugsanlega verið að ræða saman um sameiginleg hagsmunamál og það gat verið mjög hættulegt. (Gripið fram í: Það heitir samráð.) Það heitir nefnilega samráð. Þá þótti ástæða til að fara að setja vinnu stofnunarinnar í að athuga hvað bændur hefðu verið að segja hver við annan. Mér hefði ekki komið á óvart þó neðan máls í bréfinu hefði verið beðið um og þess krafist hvað hefði farið fram á herbergjum því að bændur búa þar og samráðin fara oft fram einmitt inni á herbergjum. Þessi nálgun Samkeppniseftirlitsins í viðfangsefnum sínum er farið að lifa eigin lífi í samfélaginu og ekki í takt við lífið í landinu. Nýverið sá Samkeppniseftirlitið ástæðu til að gera athugasemdir við kaup Orkuveitu Reykjavíkur á hlut í Hitaveitu Suðurnesja vegna þess að hugsanlega gæti verið um að ræða einhver brot á þeim samrunareglum sem við erum að fjalla um. Hvort tveggja eru félagslegar þjónustustofnanir, félagslegar þjónustuveitur, og ef það var talið almenningi betra, fólkinu í landinu, að Orkuveita Reykjavíkur, sem blessunarlega er enn að fullu í eigu notenda sinna, eignist þennan hlut í Hitaveitu Suðurnesja, þá væri það í sjálfu sér líka gott fyrir íbúana þar út frá þjónustuskyldum. Nei, þá sá Samkeppniseftirlitið, sem sá þetta allt í samkeppni, í fyrirtækjaformi, þar sem var verið að hugsa þetta út frá allt öðrum forsendum, ástæðu til að gera athugasemdir við það og nú er það í kæruferli. Ég tel, frú forseti, miklu frekar ástæðu til að taka verði upp heildarlög um samkeppnismál, samkeppnislög, þannig að við færum þau svolítið nær fólkinu, nær lífinu í landinu út frá þeim markmiðum.

Ég hef velt því fyrir mér hvort ekki hefði verið rétt að fylgja því betur eftir hvað er að gerast á matvörumarkaðnum þar sem dagvaran er komin í hendur — 90% eru komin í hendur þriggja aðila og um 80% á hendur tveggja. Ég hefði viljað heyra miklu harðari afskipti og aðkomu Samkeppniseftirlitsins að slíkum samruna. Hins vegar sjáum við aftur víða út um land að erfiðleikar eru í að halda úti dagvöruverslun. Ég er ekki að segja að fara eigi að ríkisvæða þá verslun, dagvöruverslunina. En menn skyldu hafa í huga hvers konar samfélag við byggjum þegar verið er að fjalla um þennan samruna.

Við vorum í atkvæðagreiðslum áðan að greiða atkvæði um hvernig mætti setja einhverjar skorður við bankana, fjármálafyrirtæki, vegna þess að þeir eru í krafti einokunar og fákeppni að setja alls konar aukagjöld á viðskipti sín við viðskiptavini, lántökur eða peningaviðskipti, VISA og greiðslukortaviðskipti o.s.frv. Við þekkjum þetta. Þetta hefur verið mikið í umræðunni. Talið var að á grunni frjálsrar samkeppni ætti ekki að þurfa að setja þeim stofnunum neinar skorður. Nú er það aftur á móti að verða svo að þessar sömu stofnanir eru að loka útibúum sínum, starfsstöðvum víða um land. Á þeim hvíla því engar þjónustukvaðir. Er það ekki mikilvægur þáttur í starfsemi allra landsmanna að eiga góðan og greiðan aðgang að þjónustustöðvum fjármálafyrirtækja? En verið er að loka þeim. Við heyrðum um daginn að verið væri að loka á Hvolsvelli, frú forseti. Verið er að loka núna þjónustumiðstöð Kaupþings á Hvolsvelli og þar með fer líka sá samningur sem viðkomandi hafði gert við Póstinn um póstdreifingu. Samkeppniseftirlitið er ekki að taka á þessum málum, nei. Það er ekki að taka á því hvort mikilvægum fyrirtækjum eins og bönkum og slíkum fjármálafyrirtækjum beri nein skylda til að halda uppi þjónustu út um allt land. Nei. Hins vegar neyðumst við til að setja reglur til að setja skorður við því hvernig þeir beita fákeppni sinni. Ég hefði talið alveg í hæsta máta eðlilegt, a.m.k. fyllilega til skoðunar, að settar verði kvaðir á stærstu bankana. Þeir eru þjóðinni ekki óviðkomandi, síður en svo. Er ekki verið að samþykkja að leggja til 500 milljarða kr. lántökur til ríkissjóðs til þess að styrkja fjármálastarfsemi bankanna? Ekki ætlar ríkið að fara að reka banka. Hefði ekki verið nær að setja þjónustuskyldur á þá? Því að þeir koma allri þjóðinni við, þó svo að við höfum horft upp á það núna hvernig þeir hafa valsað með eigur þjóðarinnar, verið með sjálftökurétt, skammtað sér himinhá laun, skammtað sér síðan kaupauka eftir því hvernig þeim hefur tekist að ná miklu fé inn. Það hefur reyndar verið gagnrýnt af mörgum að með því sé verið að gera þær stofnanir allt of áhættusetnar. Það er vitað að þegar þeir lenda í þraut þá er þjóðin að baki. En að sjálfsögðu getum við ekki misst fjármálastofnanirnar okkar. Ég hefði viljað sjá að þegar við erum að setja kvaðir á samruna, sem ég tel svo sem að geti verið eðlilegt undir ákveðnum kringumstæðum, þá ættu menn samtímis að setja á þjónustuskyldur.

Hvað með fjarskiptin, Landssímann sem var seldur vegna þess að nauðsynlegt þótti að selja hann af samkeppnissjónarmiðum? Hvað þýðir það? Það þýðir að stórir landshlutar eru án viðunandi þjónustu vegna þess að þessi umrædda samkeppni, út frá þeim einu forsendum að samkeppni sé til að græða, er á höfuðborgarsvæðinu. Þau lög og umgjörð sem sett eru með þessum hætti snúa nánast alfarið að örlitlum hluta landsins. Nú er verið að loka þjónustustöðvum Landssímans, t.d. á Egilsstöðum heyrði ég nýverið, og fyrir norðan. Lokað var á Blönduósi og á Sauðárkróki er verið að draga saman, lokað á Siglufirði o.s.frv. vegna þess að þarna var engin samkeppni, því þurfti ekki að halda uppi þjónustunni. Það var enginn annar sem vildi gera það og því þurfti ekki að halda henni úti. Samkeppniseftirlit finnst mér eiga að vera eins konar þjónustueftirlit, þannig að þessu fylgi ekki bara dyntótt afskiptasemi af hálfu eftirlitsins heldur eigi því líka að fylgja þjónustueftirlit og þjónustukvaðir. Það er ólíðandi fyrir íbúa landsins, meginhluta landsins að búa stöðugt við þær lagasetningar sem lúta alfarið að einungis litlum hluta landsins. Þau lög um samkeppniseftirlit þar sem hvergi er tekið á þjónustuskyldu eiga snúast um það. Val Samkeppniseftirlitsins á forgangsverkefnum sínum — ég man ekki hvort það skipti sér einhvern tíma af því þegar björgunarsveitir voru að selja flugelda vegna þess að það hafði einhverjum öðrum dottið í hug að ágætt væri að flytja inn flugelda til að selja. Þá var það orðin samkeppni og Rauði krossinn eða björgunarsveitir mega náttúrlega ekki vera að starfa á slíkum samkeppnisvettvangi.

Þetta eru fyrirvarar mínir, frú forseti. Ég tel að Samkeppniseftirlitið sé í mörgum tilfellum fullkomlega farið að starfa á villigötum, reyndar er það bara hættulegt og er farið að teygja sig í að skerða og takmarka hagsmuni samfélagsþjónustunnar sem okkur ber skylda til að standa vörð um á Alþingi.