135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[11:51]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil mótmæla málflutningi hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Ef ég les málflutning hans rétt dreg ég þá ályktun að hann líti á þessa löggjöf, samkeppnislögin eða aðra neytendalöggjöf, sem einhvers konar áfellisdóm um frjálsa samkeppni, að neytendavernd sé andstæður póll við frjálsa samkeppni. Ég tek alls ekki undir það, þetta tvennt fer saman.

Ég veit svo sem að hv. þingmaður er alveg sammála mér í því að samkeppnislög eru nauðsynleg lög en þau gera m.a. inngrip ríkisvaldsins óþörf. Samkeppnislög eru leikreglur á markaði, umferðarreglurnar. Bandaríski hæstirétturinn kallaði samkeppnislög stjórnarskrá atvinnulífsins þannig að þetta eru grundvallarlög sem gera fyrirtækjum kleift að starfa á jafnræðisgrundvelli neytendum til hagsbóta.

Við erum að setja margs konar lög sem lúta að því að bæta neytendavernd. Í morgun samþykktum við lög eða ákvæði sem lúta lögum um neytendalán þar sem markmið okkar var að bæta stöðu skuldara og þingmenn voru sammála um þá leið. Á eftir munum við ræða annars konar löggjöf um innheimtulög sem er líka gríðarlega mikilvæg og lýtur að því að bæta stöðu skuldara og tryggja góða innheimtuhætti. Við erum hugsanlega að fara að setja lög sem eiga að stuðla að meira jafnræði milli fjármálafyrirtækja og sparisjóða, eins og hv. þingmaður veit.

Ég vil alla vega ekki láta það ógert að mótmæla þeirri ályktun að lagasetning varðandi viðskiptalífið sé einhvers konar áfellisdómur um frjálsa samkeppni. Ég er algjörlega ósammála því að Samkeppniseftirlitið sé á einhverjum villigötum eða sé beinlínis hættulegt. Samkeppniseftirlitið er sú eftirlitsstofnun sem er að mörgu leyti einna mikilvægust (Forseti hringir.) í mínum huga í þessu samfélagi til að tryggja almannahagsmuni.