135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[11:57]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir undirtektir varðandi mikilvægi þess að fyrirtæki setji sér siðareglur og að þær séu opinberar. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Við vitum að í starfseminni hér innan lands — og síðan eru sömu aðilar með starfsemi í öðrum heimshlutum. Það ættu að gilda sömu siðareglur hvar sem er. Við verðum bara að sameinast um það í hv. viðskiptanefnd að þetta mál sé tekið til skoðunar. Við vitum að Lögmannafélagið er með siðareglur þó að okkur finnist að sumir lögmennirnir gangi stundum á svig við reglurnar. Engu að síður eru mörg samtök með siðareglur og taka á málum innan eigin vébanda og hafa þá til þess úrræði, bæði félagsleg og lagaleg. Fyrirvari minn laut ekki beint að einstökum efnisþáttum í þessu frumvarpi heldur því að þegar verið er að fjalla um samkeppnislög, samkeppnisreglur, ber að skoða heildarmyndina, líka þjónustuskylduna.

Mér finnst alveg ótækt þegar bankastofnanir, sem eru fjármálastofnanir allra landsmanna, eru með viðskipti, rekstur og þjónustu um allt land, leyfa sér að loka öllum starfsstöðvum í stórum landshlutum vegna þess að þær borga sig ekki að þeirra mati. Mér finnst að horfa verði á þessi mál í heild sinni. Samkeppnislög sem heimila að fundið sé að því við bændur að þeir ræði saman á búnaðarþingi — mér finnst það þá komið út á villigötur. Það var það sem ég vildi draga fram, frú forseti, (Forseti hringir.) í þessari umræðu.