135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[12:00]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mig langar að blanda mér stuttlega í umræðuna sem hér fer fram, um frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum. Hér hefur verið mælt fyrir nefndaráliti sem hv. viðskiptanefnd er sammála um eins og komið hefur fram en þó er fyrirvari af hálfu hv. þm. Jóns Bjarnasonar og hefur hann gert grein fyrir honum hér úr ræðustól. Jafnframt liggja fyrir nokkrar breytingartillögur frá nefndinni sem hún flytur sameiginlega.

Ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um þessar breytingartillögur heldur blanda mér svolítið í umræðuna á almennari nótum. Þetta frumvarp fjallar um samruna fyrirtækja og breytingar á lagaákvæðum samkeppnislaganna að því er varðar samruna, m.a. í því augnamiði að færa ákvæði samkeppnislaganna nær því umhverfi sem gerist á vettvangi Evrópusambandsins og innan hins Evrópska efnahagssvæðis sem við erum aðilar að og ekkert nema gott um það að segja í sjálfu sér.

Ég held hins vegar og tek undir það með bæði hv. formanni viðskiptanefndar, hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, og hv. þm. Jóni Bjarnasyni að samkeppnislöggjöfin er auðvitað gríðarlega mikilvæg löggjöf í samfélaginu og henni er ætlað að setja ákveðinn ramma og skilmála utan um starfsemi fyrirtækja í samkeppnisrekstri. Meðal annars var það orðað þannig hér af hv. þingmanni að það mætti líkja þessu við ákveðnar umferðarreglur í atvinnurekstri í viðskiptalífi og ég held að það megi alveg færa rök fyrir því að samkeppnislögin eru auðvitað ákveðinn rammi utan um það hvernig menn haga sér á markaði. Um það held ég að sé ekki deilt.

Ég vil hins vegar leyfa mér að deila með hv. þm. Jóni Bjarnasyni vangaveltum hans og sumpart áhyggjum af því hvert menn eru komnir í þessu efni því það er oft og tíðum þannig að jafnvel þótt samkeppnislöggjöfin og starfsemi Samkeppniseftirlitsins sé mikilvæg til þess að tryggja hagsmuni neytenda eins og hér hefur verið nefnt og það er auðvitað ætlunin, þá finnst manni stundum eins og þessi mál séu komin dálítið langt frá upprunalegu markmiði. Eða þá að menn þurfi að skilgreina markmiðin með nýjum hætti í ljósi breyttra aðstæðna.

Við erum auðvitað gríðarlega fámenn þjóð og það er mjög erfitt að koma á virkri samkeppni á fjölmörgum þáttum í viðskiptalífi okkar. Sums staðar gengur það prýðilega en á öðrum sviðum gengur það síður, fyrst og fremst vegna fámennis. Þá gilda að mínu mati önnur lögmál eða það þarf að minnsta kosti að aðlaga samkeppnislöggjöfina að þeim raunveruleika sem við búum við. Það kom mér satt að segja afskaplega spánskt fyrir sjónir þegar ég heyrði það í fréttum að Samkeppniseftirlitið hefði haft athugasemdir við umræður á búnaðarþingi, þar sem ég sat nú reyndar og fylgdist með, en hv. þm. Jón Bjarnason nefndi þetta í ræðu sinni og ég tek undir með honum. Það var greint frá því í fréttum að grunur væri um að Bændasamtökin hefðu haft með sér samráð, bændasamtökin, heildarsamtök í starfsgreininni. Samtök af þessum toga hljóta að mega að starfa og hafa með sér samvinnu um sameiginleg hagsmunamál.

Þetta eru auðvitað ekki einu samtökin. Við getum nefnt sem dæmi samtök fjármálafyrirtækja. Ætli þau ræði ekki sín hagsmunamál á sínum fundum? Eða er það bara teklúbbur sem kemur saman til að drekka te og borða kex, (Gripið fram í: Kaffi.) eða kaffi? Væntanlega koma þau samtök saman til þess að ræða sameiginleg hagsmunamál og það sem þau glíma við. Við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, sem hér greip fram í fyrir mér, áttum sæti saman um nokkurt skeið í stjórn Hafnasambands sveitarfélaga (Gripið fram í.) og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga en Kristján Þór Júlíusson var formaður í stjórn Hafnasambandsins og ég varaformaður. Við vorum auðvitað ábyrgir fyrir rekstri hafna. Við fjölluðum um fjölmörg sameiginleg hagsmunamál á vettvangi þessa félagsskapar. (Gripið fram í.) Já, já, við stóðum okkur auðvitað mjög vel þar eins og annars staðar.

Við vorum líka eins og hv. þingmaður nefndi saman í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er hagsmunasamband sveitarfélaganna í landinu. Auðvitað má segja að aðilar sem mynda með sér samtök kunni að vera að keppa innbyrðis um vissa hluti en þeir hafa líka sameiginlegra hagsmuna að gæta og eru mikilvægir þátttakendur í samfélaginu almennt séð. Við megum ekki ganga eins langt og gert var í þessu tilviki að setja beinlínis spurningarmerki við eða draga í efa að samtök af þessum toga séu að vinna af heilindum að hagsmunamálum sínum. Það verður auðvitað að vera heimilt. Ég tek því undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að þarna finnst mér menn fara dálítið fram úr sjálfum sér og eiginlega var það hálfbroslegt með hvaða hætti umrædd mál voru sett fram.

Undanfarna sólarhringa höfum við rætt hér stórt mál sem eru breytingar á lögum á orku- og auðlindasviði. Þar kemur t.d. fram sú krafa, ef frumvarpið verður samþykkt, að skipta upp orkufyrirtækjunum sem eru í almannaeigu og skipta þeim upp í tvo, þrjá, fjóra parta. Það verða þá til t.d. litlar rafveitur. Fyrirtæki sem eru í opinberri eigu verða kannski að hluta til í eigu einkaaðila því ef að líkum lætur verður heimilt að selja allt að 49%. Þau kunna að vera í samkeppni á einhverjum sviðum. Ég veit ekki betur en að rafveiturnar vítt og breitt um landið sinni t.d. því að setja upp jólaskraut fyrir jólin. Verður það þá bannað með nýjum lögum á þessu sviði, að fyrirtæki sinni samfélagslegum skyldum af því það kann að vera í einhvers konar samkeppni við einhvern aðila á markaði?

Stundum finnst manni eins og starfsgrein eða starfsemi sem hefur verið á hendi opinberra aðila þurfi alltaf að víkja ef einhverjum einum einkaaðila dettur í hug að fara að stunda þá sömu starfsemi. Þá líður yfirleitt ekki á löngu þar til einkaaðilinn fer að kvarta yfir því að hann sé í samkeppni við opinberan aðila og að sá aðili verði einfaldlega að víkja.

Þetta er atriði sem getur komið upp, t.d. í heilbrigðiskerfinu. Með auknum hlut einkaaðila í heilbrigðiskerfinu getur fyrr en varir komið upp sú staða að einkaaðilinn fer að kvarta yfir því að hann sé í samkeppni við opinbera starfsemi og sé þar með kominn í ósanngjarna stöðu og krefst þess að viðkomandi opinber rekstur verði einkavæddur eða boðinn út. Við getum nefnt læknaritunina sem dæmi. Það var tekin ákvörðun um að bjóða einhverja læknaritun út. Það eru einhver fyrirtæki sem bjóða í það og vilja sinna þeirri starfsemi. Eftir sem áður er einhver læknaritun á einhverjum stofnunum á hendi opinberra aðila. Þetta getur auðvitað þróast í það að fyrirtæki kvarti við samkeppnisyfirvöld og það verði til þess að hin opinbera starfsemi verði einfaldlega að víkja vegna krafna Samkeppniseftirlitsins. Og þá er sagt að það sé til hagsbóta fyrir neytendur. Mér er til efs að þetta sé alltaf til hagsbóta fyrir neytendur. Í mörgum tilfellum er um ræða hreina og klára samfélagslega þjónustu, grunnþjónustu sem skiptir sköpum fyrir byggð í öllu landinu. Hv. þm. Jón Bjarnason nefndi hér réttilega hluti eins og fjármálastofnanir vítt og breitt um landið, t.d. póstinn.

Ég vil segja að þessi þráláta og eiginlega botnlausa — á ég að segja samkeppnisfíkn? Ég veit ekki hvernig á að orða það, þessi endalausa krafa um að alls staðar skuli vera samkeppni getur auðvitað gengið algjörlega út yfir gröf og dauða allt of langt og kemur niður á þjónustu úti í hinum dreifðu byggðum. Þó að um sé að ræða starfsemi sem getur verið samkeppnisrekstur á höfuðborgarsvæðinu þar sem er nægilega mikill fjöldi til að standa á bak við samkeppnisrekstur þá er ekki endilega víst að þær aðstæður séu fyrir hendi staðar annars staðar og þá lenda menn í því að þjónustunni er einfaldlega hætt. Það er þá ekki til staðar sú þjónusta sem áður var einfaldlega vegna þess að það eru gerðar svo miklar kröfur í samkeppnislegu tilliti.

Þetta grefur auðvitað undan byggðarlögunum. Þetta er einn af mörgum þáttum sem verða þess valdandi og hafa verið þess valdandi að við höfum séð þá óheppilegu þróun sem hér hefur átt sér stað undanfarin ár í byggðamálum. Vegna þess að það eru svo margir svona þættir sem fólk metur þegar það er að velta því fyrir sér hvar það vilji búa. Eru góðar aðstæður fyrir börnin mín? Hef ég atvinnu? Er góð þjónusta o.s.frv.? Póstþjónustan getur verið eitt af því, fjármálaþjónusta o.s.frv.

Ég ítreka því sjónarmið mín í þessari umræðu, herra forseti, því þó að ég vilji alls ekki gera lítið úr samkeppnislögum og mikilvægi þess að það sé virk samkeppni þar sem hún á við þá verðum við að gera okkur grein fyrir því að hún á ekki alls staðar jafn vel við í okkar fámenna samfélagi. Þess vegna finnst mér hárrétt ábending hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að það þyrfti í raun að fara í einhvers konar heildarendurskoðun á samkeppnislögunum með tilliti til þess að menn skilgreindu hvar eigi við að nota samkeppnislögin og Samkeppniseftirlitið með þeim hætti sem við gerum í dag og hvar við gerum aðrar kröfur til þjónustuaðila um skyldur hvað varðar þjónustu. Það sé því ekki bara einn mælikvarði lagður til grundvallar, sem sé hin harða samkeppni, heldur séu fleiri mælikvarðar hafðir til hliðsjónar og Samkeppniseftirlitið eigi að taka tillit til fleiri þátta.

Við í umhverfisnefnd þar sem ég á sæti höfum verið að fjalla um breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs sem varðar raftækjaúrgang og það er innleiðing á Evrópusambandslöggjöf. Þar er verið að innleiða ábyrgð á framleiðanda og/eða innflytjanda en þar skynja menn og skilja að samkeppnin á þessu sviði er svo lítil að það er gert ráð fyrir því að landinu verði skipt upp í þjónustusvæði þannig að allir landsmenn geti átt og hafi aðgang að einhvers konar móttökustöðvum sem taka á móti rafrænum raftækjaúrgangi. Við höfum fjallað um þetta, m.a. fengið Samkeppniseftirlitið á okkar fund til þess að ræða þetta mál. Auðvitað hefur Samkeppniseftirlitið áhyggjur af því að þarna sé um fákeppni að ræða og þetta er viðfangsefni sem við erum að glíma við í nefndinni. En engu að síður var upplegg hæstv. umhverfisráðherra í frumvarpinu að landinu yrði landfræðilega skipt í þjónustusvæði með tilliti til þessarar þjónustu. Ég held að menn verði að gera sér grein fyrir því að á vissum sviðum verðum við einfaldlega vegna fámennisins að leyfa okkur það af því við viljum líka tryggja að það sé góð og heilbrigð þjónusta vítt og breitt um landið á sem flestum sviðum og að við búum öllum landsmönnum sambærileg eða sem sambærilegust skilyrði hvað þetta varðar.

Ég man ekki betur en að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem búið er að uppfylla að minnsta kosti 80%, að sagt er, sé talað um landið allt eigi að vera ein þjóð í einu landi og sambærileg lífsskilyrði hvarvetna og að þetta sé hluti af hinni svokölluðu byggðastefnu. Þá verðum við auðvitað að tryggja það að samkeppnislög hindri ekki slíkt eða komi í veg fyrir að traust og góð þjónusta sé um landið allt.

Þetta eru áherslupunktar og ég ítreka það, virðulegi forseti, að við erum ekki andvíg samkeppnislögunum eða þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir enda skrifar fulltrúi okkar vinstri grænna í viðskiptanefnd undir nefndarálitið. En það er viss fyrirvari varðandi þetta almenna viðhorf til samkeppnismálanna, við teljum að það þurfi að taka meira mið af hinum raunverulegu aðstæðum sem við búum við því það er ekki algjörlega sambærilegt við milljónaþjóðfélögin í kringum okkur.