135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[12:16]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að tjá mig um orð hv. þingmanns varðandi hversu langt hagsmunasamtök eða samtök fyrirtækja mega ganga í þessum efnum. Það er alveg ljóst að hér getur verið á ferðinni fín lína, hversu langt samtök hagsmunaaðila eða fyrirtækja mega ganga.

Hvort Bændasamtökin hafi gengið of langt eða ekki veit ég ekkert um. Ég get hins vegar bent á söguna þar sem við höfum haft dæmi um samtök atvinnugreina, sem brotið hafa samkeppnislög. Samtök eggjaframleiðenda gerðust sek um að brjóta samkeppnislög og skiptu markaðnum með ósvífnum hætti. Þar myndaðist ákveðinn vettvangur sem notaður var til að brjóta lög. Samtök grænmetisframleiðenda gerðu það sömuleiðis. Lögmannafélagið gerðist brotlegt við samkeppnislög þegar það gaf út leiðbeinandi reglur um gjaldskrá, þannig að við höfum mörg dæmi.

Svo höfum við fjölmörg dæmi utan úr Evrópu þar sem vettvangur sem byrjaði sem sameiginlegur vettvangur atvinnugreinar þróaðist meðvitað, eða jafnvel ómeðvitað á sínum tíma, yfir í að gerast brotlegur við samkeppnislög.

Það hefði heyrst hljóð úr horni ef við hefðum haft hér eitthvað sem hét Samtök bensínstöðvaeigenda á sínum tíma en í því tilviki þurftu þeir ekki einu sinni samtök til að stunda samráð sitt. Ég er bara að benda á að það getur verið ástæða til að hvetja hagsmunasamtök og atvinnugreinar til að fara varlega. Að sjálfsögðu geta atvinnugreinar og hagsmunasamtök komið fram sameiginlega í einhverjum meginlínum sem snerta atvinnugreinina í heild sinni. En við höfum því miður dæmi um að slíkt geti þróast yfir í að vera vettvangur fyrir brotlega starfsemi. Þess vegna þurfum við að fara varlega og auðvitað er alveg eðlilegt að velta svona spurningum fyrir sér, hversu langt viðkomandi samtök geta gengið hverju sinni.

Við sjáum í samkeppnislögum, í 12. gr. er sérstaklega minnst á þáttinn (Forseti hringir.) um að samtökum fyrirtækja er óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögum þessum. Við eigum ekki að (Forseti hringir.) banna þessi samtök en setja þann varnagla að þau mega að sjálfsögðu ekki vera vettvangur fyrir brotlega starfsemi og það held ég að við getum verið sammála um, hv. þingmaður og ég.