135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

innheimtulög.

324. mál
[12:57]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að gera athugasemdir við málflutning hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar. Nálgun hans var að við megum ekki gleyma hagsmunum kröfuhafa og ég get alveg tekið undir það, við megum ekki gleyma því að kröfuhafi hefur að sjálfsögðu hagsmuni af að fá skuld sína greidda, við erum svo sem ekkert að breyta því. Að sjálfsögðu ber skuldaranum eftir sem áður að greiða skuld sína. Það sem við erum að gera er að setja ákveðna lagareglu til að tryggja góða innheimtuhætti, tryggja það að skuldarinn verði ekki fyrir óeðlilegum kostnaði. Það er ekki verið að fyrirbyggja að kröfuhafinn fái greiðslu skuldar sinnar, þvert á móti, tekið er sérstaklega fram að hann á að fá greiðslu fyrir þann kostnað sem hann verður fyrir. Við vitum hins vegar að innheimtuaðgerðir sumra aðila hafa verið dýrar, of dýrar, það hefur fallið óeðlilegur kostnaður á viðkomandi skuldara. Að sjálfsögðu er þetta hluti af neytendavernd. Neytendur eru væntanlega að kaupa eitthvað og við sjáum núna að því passi þessi löggjöf svo vel inn í það andrúmsloft sem við erum núna í í ljósi þess að mörg íslensk heimili eru mjög skuldug. Því kemur þessi löggjöf á mjög góðum tíma til að mæta þeim vandræðum sem mörg heimili verða hugsanlega fyrir þegar kemur að því að innheimta skuldir þeirra, þ.e. þegar kemur að skuldadögum.

Þess vegna finnst mér nálgun Framsóknarflokksins svolítið sérkennileg í þessu máli að hafa þennan fyrirvara á. Mér finnst líka hv. þingmaður fullfljótur að gleyma því að frumvarpið byggist á frumvarpi annars stjórnmálamanns, sem vildi svo til að var framsóknarmaður, því að Finnur Ingólfsson, þáverandi viðskiptaráðherra, flutti sambærilegt mál og nú er til umfjöllunar. Hugsanlega hefur Framsóknarflokkurinn breyst með nýjum þingflokki en ég ætla ekki að gera hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni það að vera andsnúinn málinu. Mér finnst nálgunin samt sérkennileg vegna þess að að sjálfsögðu er nálgunin sú að menn fái greiddar (Forseti hringir.) skuldir sínar en að það megi ekki halla óeðlilega á skuldarann. Ég held að það sé löggjöf sem margir ef ekki allir ættu að fagna.