135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

innheimtulög.

324. mál
[13:01]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst allt í lagi að slá sig til riddara í góðum málum þó að þau komi að uppistöðu frá Framsóknarflokknum eins og þetta mál. Mér finnst það allt í lagi, ég er sannfærður um að þetta er góð löggjöf. Ég er ekki sammála því að hún geri einungis þennan ramma skýrari. Það er í sjálfu sér líka fagnaðarefni að við fáum skýrari ramma utan um það samband sem er á milli skuldara kröfu og innheimtuaðila, en við erum að ganga miklu lengra en það. Við erum að setja ákveðnar meginreglur um þessa góðu innheimtuhætti sem munu hafa að mínu mati víðtækar afleiðingar, jákvæðar afleiðingar miðað við þann kúltúr sem vill þó kannski eiga sér markaði.

Við sjáum líka að við erum að setja reglugerðarheimild fyrir ráðherra til að ákveða hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. vegna þóknunar. Þetta er stór róttæk breyting sem umsagnaraðilar voru ekki allir sáttir við. Sömuleiðis erum við að setja sérstakt ákvæði um innheimtuviðvörun, sem mér finnst alveg sjálfsagt að skuldarinn eigi rétt á. Því er miklu meira á ferðinni en bara að gera hlutina skýrari, hér eru efnislegar réttarbætur fyrir neytendur, skuldara, hvernig sem við lítum á það. Við nálgumst þetta mál út frá hagsmunum fólksins í landinu. Ég fagna því að hv. þingmaður ítrekar stuðning sinn við málið því að ég veit svo sem að hann styður það þó að hann vildi draga þetta sérstaklega fram. Ég get alveg tekið undir það að við eigum ekki bara að nálgast þetta mál út frá hagsmunum skuldara, því að þarna er kröfuhafi á bak við sem á sinn rétt. Þrátt fyrir það megum við ekki gleyma að þegar þriðji aðilinn er kominn í málið, innheimtuaðili, þá er auðvitað komið samband á milli skuldara og innheimtuaðila þar sem í rauninni ekkert viðskiptasamband er, skuldarinn hefur ekki val um innheimtuaðila sína og þess vegna er svo mikil nauðsyn á að hafa ramma utan um slíka þætti og þess vegna ættum við öll að fagna lagasetningu af þessu tagi, ekki síst í því árferði sem er núna.