135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum er varða verðbréfaviðskipti.

538. mál
[14:04]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins varðandi spurninguna sem hv. þingmaður beindi til mín. Eins og ég gat um í hinu andsvarinu erum við með þessari breytingartillögu að taka út orð sem voru í 2. mgr., orðin „eða einstaka rekstrarhluta þess“. Það er ekki rétt að segja, eins og hv. þingmaður gerir, að samruni sparisjóða við önnur fyrirtæki sé óheimill. Hann er heimill en sparisjóður þarf að hlutafélagavæða sig fyrst.

Við erum hér að leyfa sparisjóðunum að kaupa rekstrarhluta án þess að hlutafélagavæða sig fyrst. Það hlýtur að vera fagnaðarefni fyrir hv. þingmann sem er ekki hrifinn af hlutafélagavæðingu. (Gripið fram í.) — Akkúrat. Ég vil útskýra það enn frekar, af því að þetta skiptir máli, að með yfirfærslu einstaka rekstrarhluta fjármálafyrirtækja til annars fyrirtækis er átt við þegar rekstrarhluti er færður til eða frá fjármálafyrirtæki með öðrum hætti en samruna í skilningi hlutafélagalaga, t.d. með sölu. Er lagt til að skilgreint verði hvað átt er við með rekstrarhluta í þessu ákvæði, þ.e. starfhæfa einingu innan fjármálafyrirtækis, t.d. útibú en ekki yfirfærslu á tilteknum eignum.

Við leggjum því til að fellt verði á brott ákvæði um að samruni sparisjóðs við einstaka rekstrarhluta annars fyrirtækis en sparisjóðs sé óheimill nema sparisjóðnum hafi áður verið breytt í hlutafélag, þ.e. það er bannið í dag. Við erum að taka út þessi orð sem bönnuðu sparisjóðum að kaupa eða sameinast rekstrarhlutum án þess að hlutafélagavæða sig fyrst. Þannig að það sé alveg skýrt.

Ég minni líka á að við slík kaup þarf samþykki Fjármálaeftirlitsins að sjálfsögðu að liggja fyrir. Við erum að reyna að geta sparisjóðum kleift, án þess að stíga það róttæka skref að hlutafélagavæðast, að kaupa einstaka rekstrarhluta sem eru skilgreindir með þeim hætti sem ég fór hér yfir áðan.