135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum er varða verðbréfaviðskipti.

538. mál
[14:06]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Sé þetta skilningur hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, formanns nefndarinnar, sé ég ekkert því til fyrirstöðu að breyta þessu orðalagi þannig að það sé skýrt að hér sé ekki um samruna sparisjóðs við fyrirtæki að ræða heldur kaup eða yfirtöku. Þá er þetta í samræmi við það sem hv. þingmaður er að segja. En á meðan þetta orð stendur þá er svo ekki. Samruni þýðir allt annað en kaup og yfirtaka, þó að þetta sé talið upp þá er það nú bara svo. Sé vilji til þess að gera breytinguna þannig að þetta sé eftir því sem tök eru á pottþétt þá eigum við að gera það.

Varðandi Fjármálaeftirlitið verð ég bara að segja, og ég get haldið nokkrar ræður um það, að í afskiptum þess af yfirtökum og ágangi á sparisjóðum í landinu — ég treysti því ekki. Ég get í seinni ræðu minni rakið dæmi þar að lútandi. Þannig að það er í sjálfu sér ekki trygging. Trygging er þá fyrir því að við reynum í lögunum að gera þau skýr og afdráttarlaus þessi markmið, að við fellum þetta orð „samruni“ burt og segjum að sparisjóði sé heimilt að kaupa og yfirtaka.