135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

539. mál
[14:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst til að leiðrétta eða skýra betur afgreiðslu málsins árið 2006 þá var Ögmundur Jónasson, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í nefndinni, með fyrirvara á álitinu, einmitt hvað snerti hryðjuverkamál, svo því sé haldið til haga. Hvort hann hefur síðan greitt atkvæði með öllum tillögunum eða setið hjá er annað en ég las ræðu hans og fyrirvari hans laut að þessum hryðjuverka- og stjórnmálalegu tengslum sem þarna var verið að draga inn óskilgreind eða lítið skilgreind.

Þó að hér séu 34 ríki sem eiga aðild að þessu þá má segja að þetta séu öll ríki heims og þau eru þrátt fyrir allt einsleitur hópur. Ég er ekki að gera lítið úr þessum hóp, alls ekki. En það má heldur ekki víkka hann út, segja að hann standi fyrir allar Sameinuðu þjóðirnar. Hann gerir það ekki. En ég ætla samt ekki að gera neitt lítið úr þessum hóp fyrir því og væri gott fyrir okkur að tengjast honum sem slíkum.

Ég tek undir orð hv. þingmanns varðandi mannréttindamálin að um þau er nú tekist. Það er mjög viðkvæmt. Við viljum meira að segja fá mannréttindi inn í íslenska lagasetningu um grunnskóla og framhaldsskóla. Við viljum standa við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í fiskveiðistjórnarmálum og við viljum líka standa við ákvæði mannréttindanefndarinnar og mannréttindamál í lögum. Þó að þau fjalli um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka þá er það líka grundvallarmál okkar í Vinstri hreyfingunni — grænu framboði að standa við mannréttindi hvar sem er. Ég tel að upplýsingar um flokkun í stjórnmálaleg hættuleg samtök og hryðjuverkasamtök með þessu frumvarpi séu ófullnægjandi.