135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

539. mál
[15:12]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hér sé ekki á ferðinni framsal löggjafarvalds eða hvernig sem hv. þingmaður orðaði það. Við vitum hins vegar að útibú íslenskra fyrirtækja lúta eftirlitsskyldu íslenska fjármálaeftirlitsins . Það er m.a. ástæðan fyrir því að við höfum verið að auka fjárframlög til Fjármálaeftirlitsins eða markaðarins um 50% á milli ára, því að umsvifin hafa verið svo mikil á erlendri grundu. Það sem hér er einfaldlega átt við er að ef hið erlenda ríki er með strangari reglur þegar kemur að regluverki gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka þá ber að nota þær reglur.

Þetta er svo sem í samræmi við athugasemdir FATF-nefndarinnar sem gerði sérstaka athugasemd við þetta í skýrslu sinni og þess vegna kemur þetta til að útibú geta ekki falið sig bak við lakari reglur í heimaríkjunum ef viðkomandi ríki sem útibú er staðsett í er með strangari reglur. Það er hugsunin varðandi þessa lagabreytingu, þá þurfa útibúin eða dótturfélögin að lúta strangari regluverki sem er á því svæði sem útibú er staðsett. Þau geta sem sagt ekki falið sig á bak við vægari reglur í heimaríki móðurfélagsins ef svo mætti segja, frú forseti.