135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

lokafjárlög 2006.

500. mál
[15:38]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Afgreiðsla á þessum lokafjárlögum er í samræmi við það sem hefur verið gert á umliðnum árum og ég ætla ekki að tjá mig um það hvort um sé að ræða lögleysu eða ekki. Ég ítreka það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans á bls. 2 í I. kafla. Þar segir:

„Fjárlaganefnd leggur áherslu á að markvisst verði unnið að því að vinnu við gerð frumvarps til lokafjárlaga verði hraðað innan hvers árs þannig að leggja megi það fram samhliða ríkisreikningi. Tæknilega sýnist fátt því til fyrirstöðu og ætti það að geta gerst við framlagningu lokafjárlaga fyrir árið 2007 og ríkisreikning þess árs.“

Ég vonast til þess að fjármálaráðuneytið og þeir sem koma að gerð lokafjárlaga fyrir árið 2007 svo og þeir sem ganga frá ríkisreikningi, þ.e. Ríkisendurskoðun, muni taka þessar athugasemdir okkar það alvarlega að menn reyni að vinna að því eins og sagt er í álitinu.

Gagnvart þeim atriðum sem snúa að Sóltúnsheimilinu í lokafjárlögum fyrir árið 2006 vil ég vísa til þeirrar umræðu sem var utan dagskrár í þessari viku þar sem var sérstaklega fjallað um Sóltúnsheimilið. Vék ég þá í ræðu minni þá að þeim þáttum sem tengjast uppgjöri á árunum 2003, 2004, 2005 og 2006, að mig minnir, og þeim ábendingum sem Ríkisendurskoðun hafði og heilbrigðisráðuneytið hafði tekið undir með því sem kom fram í þeirri greinargerð. Ég á von á því að það mál sé enn þá í vinnslu líkt eins og Ríkisendurskoðun og ráðuneytið hafa lýst yfir í þessari skýrslu.