135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

lokafjárlög 2006.

500. mál
[16:30]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ágæta ræðu, hvernig hann nálgast það verkefni að breyta vinnulagi við fjárlagagerðina. Eitt er það sem ég hefði talið að hægt væri að gera nú strax og hefði átt að gera í vor en það er að leggja fram fjáraukalög, fjáraukalög sem tækju til þeirra breytinga sem orðið hafa á fjárlögum ársins 2008, bæði vegna samþykktar Alþingis, sem hafa breytingar í för með sér, og í ljósi breyttrar stöðu í efnahagsmálum o.s.frv., hvort sem það væru mörg atriði eða fá. Ég hefði talið að það væri eitt fyrsta skrefið í því að bæta fjárlagavinnuna og tryggja að Alþingi komi að málum áður en þau eru framkvæmd að geta lagt fram fjáraukalög.

Ekkert í fjáraukalögum bannar það, síður en svo, meira að segja er kveðið á um það. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort við getum ekki sameinast um að flytja fjáraukalög nú í vor fyrir lok þingsins sem kveða á um og taka til þeirra breytinga sem þegar liggur fyrir að verður að gera í formi skuldbindinga og fjárútláta því að þær eru nokkrar. Alþingi gæti þannig komið að málinu fyrir fram en ekki staðið frammi fyrir því í haust. Þá væri þetta allt um garð gengið og hlutverk fjárlaganefndar og Alþingis væri aðeins að stimpla gerðir framkvæmdarvaldsins. Við gætum tekið á þessu atriði strax, ekki satt, frú forseti?