135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

lokafjárlög 2006.

500. mál
[16:35]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæti í ræðustól eftir yfirferð hv. formanns fjárlaganefndar, Gunnars Svavarssonar, og hv. þm. Jóns Bjarnasonar, sem fór yfir nefndarálit okkar í minni hlutanum. Það er kannski ekki miklu við þær ræður að bæta, þau andsvör og þær rökræður sem hér hafa farið fram. Ég vil þó aðeins víkja að örfáum atriðum.

Þegar nefndarálitin eru skoðuð má segja að þau séu lík og fjalli um sömu atriðin sem eðlilegt er. Við höfum verið að fjalla um þetta verkefni í fjárlaganefnd og höfum verið að reyna að sammælast um að færa ákveðna hluti til betri vegar. Það kemur fram í báðum nefndarálitum og hefur komið fram í þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar, bæði af varaformanni og formanni fjárlaganefndar og hv. þm. Jóni Bjarnasyni.

Vandi okkar í þessu er sá að við afgreiðslu lokafjárlaga er ekki farið að eins og ætti að gera. Eins og réttilega hefur verið vikið að ættu ríkisreikningurinn og lokafjárlögin að fylgjast að og koma þannig til afgreiðslu í þinginu, njóta samræmingar í vinnu fjárlaganefndar og fara síðan inn í þingið þar sem hvort tveggja lægi þá fyrir við endanlega afgreiðslu fjárlaga ársins 2006 sem við ræðum í lokafjárlögum. Vandanum hefur verið lýst í þessum ræðum. Hann markast við framúrkeyrslu stofnana og það ástand sem upp kemur þegar stofnanir þurfa jafnvel að fjármagna rekstur sinn með yfirdrætti og lánum sem lendir nánast alltaf að lokum á ríkissjóði. Stofnanir ná sjaldan að keyra reksturinn á næsta ári niður eða ná til baka þeim fjármunum sem farið hafa í reksturinn. Ýmsar eðlilegar skýringar kunna að vera á því. Stofnanir geta auðvitað mætt mismunandi rekstri og á það kannski helst við um fámennari stofnanir. Ekki þurfa að koma upp nema alvarleg veikindi tveggja til þriggja starfsmanna til að kostnaður fari verulega fram úr því sem gert hafði verið ráð fyrir.

Stofnanir safna líka upp fjármunum og eiga ónotaðar fjárheimildir. Það er rétt, sem hér hefur verið vikið að, að jafnvel þegar við erum að semja fjárlög næsta árs liggur það ekki endilega fyrir hvað stofnanir eiga á uppsöfnuðum viðskiptareikningum. Það vantar kannski heildaryfirsýn yfir málin. Um þetta er enginn ágreiningur í fjárlaganefnd, ég hef ekki orðið var við það. Menn vilja taka á þessu og vinna þetta betur. Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að ég hef ekki orðið var við annað en að hjá formönnum fjárlaganefndar sé fullur vilji til að stefna að því að vinna þessi mál með öðrum hætti en þeim sem orðið hefur að venju, ef hægt er að orða það svo, undanfarin ár. Það er áhugavert verkefni fyrir okkur sem vinnum í fjárlaganefnd að reyna að lagfæra þessi atriði að því er varðar meðferð fjárlaga og meðferð fjárheimilda. Fjárreiðulögin mæla líka fyrir um hvernig þetta skuli gert, hvernig heimilda skuli aflað o.s.frv. Fjármálaráðuneytið á svo að hafa eftirlit með öðrum ráðuneytum og síðan stofnunum eftir atvikum.

Við þyrftum að skoða það í fjárlaganefnd hvernig við gætum komið betur að vinnu við fjáraukalög. Við getum t.d. nefnt að í fjárlögum þessa árs, ef ég man tölurnar rétt, mörkuðum við tekjur af bensíni og olíuvörum við 15,5 milljarða kr. Hvort sem tekjur keyra fram úr eða ekki eigum við að skoða það í fjáraukalögum hverju sinni hvort í það stefni að þau lög sem við mörkuðum með fjárlögunum gangi eftir. Ég tel allar líkur á því, vegna þróunar olíuverðs, að tekjur af olíuvörum verði um 2,5 milljörðum umfram það sem markað er í fjárlögum. Við ættum því að hafa komið að því að skoða fjáraukalög þessa árs — þá annaðhvort hækka menn tekjupóstinn til samræmis við það sem er að gerast eða þá að menn setja fram tillögur um að lækka tekjuöflunina til að fjárlögin séu í samræmi við það sem búið er að samþykkja.

Þetta er kannski einfalt dæmi en sýnir í reynd að þó að fjárreiðulögin marki því þröngan bás hvað megi gera við gerð kjarasamninga með ófyrirséðum atriðum koma svona dæmi upp og þurfa athugunar við. Ég hefði talið, hæstv. forseti, að fjárlaganefnd — og um það sýnist mér meiri og minni hluti sammála — þurfi að koma fyrr og betur að fjáraukalagagerð og þar með jafnvel vinnu við fjárlög.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu. Það er búið að segja flest af því sem ástæða er til að draga fram úr þessum nefndarálitum og því verki sem við erum hér að setja lokastimpil á. Menn eru sammála um að vinnuferlinu þurfi að breyta. Ég hef fulla trú á því að þeir sem nú stýra fjárlaganefnd muni stýra því verki áfram til að lagfæra það — það hefur verið í vanaföstu fari undanfarin ár sem menn hafa ekki almennilega komist út úr. Ég hygg að um það hafi tekist nokkuð góð samstaða í fjárlaganefnd. Þó að við höfum skilað tveimur mismunandi álitum eru þau að mörgu leyti lík og vikið er að svipuðum áherslum í báðum álitunum. Ég vænti þess að þær áherslur sem fram koma í nefndarálitunum verði verklýsing fyrir það hvernig fjárlaganefnd vilji vinna að þessum málum á komandi mánuðum og missirum.