135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

tekjuskattur.

515. mál
[16:45]
Hlusta

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, frá hv. efnahags- og skattanefnd sem er að finna á þskj. 1036.

Eins og kemur fram á því þingskjali þá fékk nefndin gesti til sín og fékk umsagnir. Þar er frumvarpinu lýst og helstu breytingum sem það veldur.

Nefndin bendir á að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins styðja frumvarpið varðandi þann þátt sem snýr að aðgerðum ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana. Seðlabankinn hvetur til aðhalds í opinberum fjármálum en af því tilefni vill nefndin árétta að frumvarpið er liður í framkvæmd skynsamlegra kjarasamninga sem stuðla í heild að stöðugleika.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar sem varða skattalega meðferð gengishagnaðar og gengistaps, afdráttarskatt á arðgreiðslur til erlendra aðila með takmarkaða skattskyldu og staðaruppbót starfsmanna Þróunarsamvinnustofnunar Íslands erlendis.

Eftir ábendingu fjármálaráðuneytis leggur nefndin til nokkrar breytingar til viðbótar við frumvarpið en tekið skal fram að fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs óskaði eftir því við afgreiðslu málsins að ríkisskattstjóri gæfi álit sitt á þeim og enn fremur þeirri breytingu sem nefndin leggur til á ákvæðum frumvarpsins um skattalega meðferð gengisbreytinga sem áður hefur verið gerð grein fyrir.

Fyrsta viðbótin kemur fram í b-lið 2. töluliðar og a-lið 4. töluliðar breytingartillagna nefndarinnar og er ætlað að árétta hvernig standa skuli að skattalegri meðferð gengishagnaðar sem myndast við innlausn hlutdeildarskírteina í erlendum gjaldmiðli í ljósi nýlegs úrskurðar yfirskattanefndar, nr. 70/2008, sem ástæða þótti til að bregðast við.

Önnur viðbótin kemur fram í b-lið 3. töluliðar breytingartillagnanna og snertir meðferð ónýtts persónuafsláttar þegar honum er ráðstafað til greiðslu fjármagnstekjuskatts samkvæmt reglum 2. mgr. A-liðar 67. gr. tekjuskattslaga. Tilgangur breytingarinnar er að gera skattleysismörk gagnvart fjármagnstekjum áþekk því sem á við um aðrar tekjur.

Þriðja viðbótin kemur fram í b-lið 4. töluliðar breytingartillagnanna en þar er lögð til breyting á skattlagningu kaupskipaútgerðar til samræmis við a-lið 6. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir að tekjuskattur hlutafélaga og einkahlutafélaga lækki úr 18% í 15%.

Fjórða viðbótin kemur fram í a-lið 3. töluliðar breytingartillagnanna og felur í sér breytingu á orðalagi í samræmi við ábendingar Svæðisskrifstofu fatlaðra á Reykjanesi.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson skrifar undir álitið með fyrirvara. Gunnar Svavarsson og Paul Nikolov voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og styður málið.

Undir álitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Ögmundur Jónasson með fyrirvara, Bjarni Benediktsson, Magnús Stefánsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Lúðvík Bergvinsson.