135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

tekjuskattur.

515. mál
[16:48]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. framsögumanns Péturs H. Blöndal er ég með fyrirvara á þessu frumvarpi. Ég styð það þegar á heildina er litið enda sprottið upp úr kjarasamningum sem víðtæk sátt lá að baki. Ég tek undir þau sjónarmið sem eru runnin frá verkalýðshreyfingunni og lúta að hækkun persónuafsláttar, breytingum á barnabótum og eignaviðmiðunarmörkum vaxtabóta.

Hvað snertir lækkun á tekjuskatti hlutafélaga og einkahlutafélaga úr 18% í 15% þá styð ég þá breytingu ekki og mun greiða atkvæði gegn henni. Varðandi skattalega meðferð á gengistapi hef ég ákveðnar efasemdir en mun ekki leggjast gegn því og sitja hjá við þá grein.